Grímsvötn tilbúin í gos

Grímsvötn eru virkasta eldstöð landsins. Síðasta gos var 2011.
Grímsvötn eru virkasta eldstöð landsins. Síðasta gos var 2011. mbl.is/RAX

Ekki er talið að halup sé að hefjast í Grímsvötnum miðað við þau gögn sem liggja fyrir á þessari stundu. Þetta segir Einar Hjörleifsson, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofunni, í samtali við mbl.is.

Greint var frá því í gær að hlaup væri líklega að hefjast í Grímsvötnum, en að baki því lágu breytingar á stöðu íshellunnar sem GPS-mælingar sýndu. Einar segir að stöðugt safnist jökulvatn í Grímsvötn á þessum árstíma og við það rísi íshellan jafnt og þétt. 

„Þetta merki sem við sáum í gær var um að íshellan væri á leið niður á við sem benti til þess að hlaup væri að hefjast,“ segir Einar. Í nótt hafi GPS-mælar hins vegar sýnt hækkun á yfirborði á ný og ekki talið á þessum tímapunkti að hlaup sé að hefjast. Vísindamenn frá Veðurstofunni fljúga á morgun að Grímsvötnum til að gera gasmælingar og virða fyrir sér stöðuna. 

Þrýstingsléttir geti hleypt af stað gosi

Jökulhlaup undan Grímsvötnum hefur ekki teljandi áhrif á íbúa á svæðinu, að sögn Einars, en áhrifanna gætir kannski helst á ferðafólk. Ekki er þó mikil hætta á ferðum þar sem góður fyrirvari, um 3-5 dagar, gefst frá því GPS-mælar gefa til kynna með óyggjandi hætti að hlaup sé að hefjast og þar til hlaupið brýst undan jökli.

Meira áhyggjuefni sé mögulegt gos á svæðinu. 

„Skyndilegur þrýstingsléttir [vegna jökulhlaups] getur hleypt af stað gosi. Það gerist ekki samstundis heldur dögum eða vikum eftir hlaupið,“ segir Einar. Það hafi síðast gerst 2004, en þar áður 1934 og 1922. „Svo geta líka komið Grímsvatnaflóð án þess að það fari að gjósa. En jarðeðlisfræðilegar mælingar benda til þess að jökullinn sé tilbúinn í gos.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert