Ferðamenn hafa í heildina greitt um 570 milljónir króna fyrir skimun á landamærum. Þetta staðfestir Jónas Guðmundsson, fjármálastjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, í samtali við mbl.is.
Heildarkostnaður af skimun við landamæri liggur ekki fyrir, en að sögn Jónasar er kostnaðurinn heilmikill. Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu heldur utan um landamæraskimun á suðvesturhorninu, og einnig utan um gjaldtöku fyrir skimun á landamærum.
Samkvæmt núverandi fyrirkomulagi á landamærum, eins og það hefur verið frá 15. júní síðastliðnum, er tekið gjald fyrir skimun þar. Mbl.is hefur áður greint frá því að það gjald sem hefur verið tekið fyrir skimun við landamæri, 9 þúsund ef greitt var fyrirfram og 11 þúsund ef greitt var fyrir skimun við komuna til landsins, hafi ekki staðið undir þeim kostnaði sem af skimuninni hlaust.
Frá og með miðvikudeginum 19. ágúst munu öll þau sem koma til Íslands fara í skimun á landamærum. Síðan fer fólk í sóttkví og aðra að fjórum til sex dögum liðnum. Ekki liggur fyrir hvort gjaldi sem tekið er fyrir skimun á landamærum verði breytt í kjölfar þessara hertu aðgerða landamærum sem tilkynnt voru í gær.
Rík hagfræðileg rök hníga að því að þeir sem leggja í ferðalög greiði sérstaklega fyrir þann samfélagslega kostnað sem af þeim hljótast við núverandi aðstæður til viðbótar við greiðslu fyrir kostnað af landamæraskimun. Þetta kemur fram minnisblaði fjármála- og efnahagsráðherra um efnahagslegs sjónarmið við ákvörðun um umfang sóttvarnaaðgerða á landamærum.
Í minnisblaðinu kemur fram að svo lengi sem einhverjar líkur séu á því að smitaðir ferðalangar komist inn í landið felist mikill kostnaður af ferðalögum milli landa. Hann komi fram í aukinni tíðni harðari sóttvarnaaðgerða, veikindum og hugsanlegum dauðsföllum auk tapaðra vinnustunda vegna sóttkvía.
„Kostnaður einstaklinga við ferðalög ætti að endurspegla þessa áhættu,“ segir í minnisblaðinu.
Í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is um kostnað við landamæraskimun þann 8. ágúst sagði Páll Þórhallsson, verkefnastjóri í forsætisráðuneytinu, að kostnaður við landamæraskimun liggi víða.
Þá er um að ræða, meðal annars, kostnað heilsugæslunnar um allt land við sýnatökur og sýnatökusett, flutningskostnað vegna sýna og kostnað hjá Landspítalanum (og framan af hjá ÍE) við greiningu sýna. Auk þess varð til kostnaður hjá Isavia við að koma sýnatökuaðstöðu og hjá landlækni við þróun tölvubúnaðar. Þá var ótalinn ýmiss kostnaður hjá landamæralögreglu og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.
Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu, telur að gjaldtaka landamæri hafi ekki staðið undir kostnaði hingað til, en að ferlið að taka sýni og skima fyrir veirunni hafi orðið margfalt skilvirkara heldur en það var í upphafi. Rannsóknartækin séu til dæmis kröftugri og ódýrari í rekstri en þau voru. „Hver stafsmaður hjá okkur er aðeins eina mínútu að taka sýni, sem er gríðarlega skilvirkt. Það gerir þetta ódýrara.“
Í minnisblaði fjármála og efnahagsráðuneytisins kemur fram að niðurstaða rannsóknar í Bandaríkjunum hafi verið sú að samfélagslegur kostnaður af hverju COVID-19 smiti væri jafnvirði um 40 milljóna króna á núverandi gengi.
Þar kemur einnig fram að efnahagslegir hagsmunir af því að komast hjá hörðum sóttvarnaaðgerðum geta hlaupið á hundruðum milljarða króna á ársgrundvelli.