Til stendur að framkvæma raunhæfismat á framkvæmd við gerð listaverksins Pálmatré eftir Karin Sander, sem til stendur að reisa á Vörputorgi í Vogabyggð.
Þetta kemur fram í svari Örnu Schram, sviðsstjóra menningar- og ferðamálasviðs, við fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur, borgarfulltrúa Miðflokksins. Spurning Vigdísar var svohljóðandi: Hvað er að frétta af pálmatrjánum í Vogabyggð?
Fram kemur í svari Örnu í Morgunblaðinu í dag, að borgarráð hafi samþykkt að fyrrnefnt raunhæfismat yrði framkvæmt. Í kjölfarið hafi umhverfis- og skipulagssviði borgarinnar verið falið að vinna úttekt og sé áætlað að vinna hana með óháðum ráðgjafa í tengslum við hönnun Vörputorgs, þar sem verkinu er ætlaður staður.
„Gert er ráð fyrir að framkvæmd við gerð verksins, þ.m.t. að planta trjám, fylgi frágangi opinna svæða í hverfinu og er hönnun torgsins og uppbygging háð annarri uppbyggingu við torgið og unnin í samráði við lóðareigendur. Ekki eru tafir á framkvæmd,“ segir Arna í svari sínu.