Heitavatnslaust verður á stórum hluta höfuðborgarsvæðisins frá klukkan tvö í nótt og til 09:00 á miðvikudagsmorgun. Lokunin nær til um 50.000 íbúa og fjölda fyrirtækja og stofnana. Svokölluðum „viðkvæmum notendum“ hefur verið gert sérstaklega viðvart. Líklegt þykir að þetta sé stærsta heitavatnslokun fyrr og síðar.
„Þetta er hluti af framtíðaráætlun sem kveður meðal annars á um að fleiri heimilum verði komið inn á heitavatnsleiðslur sem komi frá Hellisheiðar- og Nesjavallavirkjunum en ekki úr borholum í Reykjavík og Mosfellsbæ. Þannig má tryggja sjálfbærni þeirra viðkvæmu borhola.“ Þetta segir upplýsingafulltrúi Veita, Ólöf Snæhólm Baldursdóttir, í samtali við mbl.is.
Hvað á ég að gera þegar lokað er fyrir heita vatnið mitt?
Hér má finna kort sem sýna þau svæði sem lokunin nær til.
Ólöf segir jafnframt að hún muni ekki eftir viðlíka framkvæmd. „Ég man að minnsta kosti ekki eftir stærri heitavatnslokun þó ég þori ekki að fullyrða að þetta sé sú stærsta.“ Að sögn Ólafar getur alltaf eitthvað farið úrskeiðis við svona stórar framkvæmdir, hún sé þó bjartsýn á að verkefnið gangi vel. „Við höfum undirbúið þetta svo mánuðum skiptir og við erum algjörlega reiðubúin til þess að takast á við alla hnökra sem upp gætu komið.“
Svokölluðum „viðkvæmum notendum“ hefur verið gert sérstaklega viðvart að sögn Ólafar. Má þar nefna hjúkrunarheimili, matvælaframleiðendur og aðra mikilvæga starfsemi sem þarf að gera ráðstafanir langt fram í tímann við svona raskanir. „Samráð við þessa aðila hefur verið mjög gott.“
Ólöf segir starfsemi Veitna ekki skerst vegna kórónuveirufaraldursins. „Við hópaskiptum okkar starfsfólki þannig það geti alltaf eitthvað starfslið verið til taks ef svo ólíklega vildi til að smit kæmi upp hjá okkur. Við verðum eins og allir aðrir að læra að lifa með þessari veiru. Okkar starfsemi hins vegar býður ekki upp á að fresta þeim verkefnum sem fyrirhuguð eru. Það kæmi bara í bakið á okkur seinna.“
Þar vísar Ólöf til þess að álag á það heitavatnskerfi, sem Veitur vinna nú bætur á, hefur aukist umtalsvert síðustu ár. Með fólksfjölgun og þéttingu byggðar undanfarin misseri hefur álag á jarðhitageyminn, sem fæðir borholurnar sem nú eru í notkun, aukist svo um munar. Við þessu ástandi hafi þurft að bregðast.