Það fer bara vel um Þórunni Kolbeinsdóttur, myndlistarmann og bóksala, í sérherbergi hennar í sóttvarnahúsinu við Rauðarárstíg, þar sem hún sér fram á að vera í einangrun næstu vikur, alltént ef sambýliskonur hennar tvær reynast, ólíkt henni, ekki vera smitaðar af kórónuveirunni.
Þórunn greindist með veiruna á föstudaginn og þar sem hún hafði ekki kost á að vera í einangrun heima við fékk hún inni á Rauðarárstíg á laugardaginn, en ef sambýliskonur hennar eru með veiruna geta þær svo sem verið saman í einangrun á heimili þeirra í Vesturbænum.
Þórunn er ein af 121 sem eru í einangrun á Íslandi vegna kórónuveirunnar. Langflest þessara smita eru innanlandssmit og það gildir um smit Þórunnar, sem hefur ekki ferðast til útlanda nýlega. Hún hefur ekki hugmynd um hvaðan hún fékk veiruna.
„Það hefur enginn verið veikur í kringum mig eða neitt þannig. Ég hef líklegast fengið þetta í vinnunni á einhverjum tímapunkti,“ segir Þórunn, sem vinnur við afgreiðslu í Eymundsson á Skólavörðustíg.
Fólkið í kringum Þórunni hefur verið í skimun í gær og í dag og niðurstaðna er að vænta á næstu dögum. Fyrst fann Þórunn fyrir örlitlum kvefeinkennum á sunnudeginum fyrir viku, hringdi á heilsugæslu, spurði hvort hún ætti að bregðast við en henni var sagt að það þyrfti ekki í bili. Einkennin fóru síðan og á miðvikudegi mætti hún til vinnu frísk en á fimmtudegi fann hún allt í einu ekki bragð af morgunkaffinu. Hún pantaði tíma, fór í sóttkví og daginn eftir greindist hún með veiruna.
Hún segir skrýtna tilfinningu að greinast án þess að hafa minnstu hugmynd um hvaðan smitið er komið. „Ég er sjálf búin að passa mig rosalega vel en mér finnst þetta sýna að allt sem við erum að gera, spritta sig oft á dag og gæta að öllu og lifa þessu skrýtna lífi, að það er ekki tilgangslaust.“