15 skiptinemar til landsins í vikunni

Skiptinemarnir munu flestir fara í sóttkví hjá fjölskyldum. Ljósmynd úr …
Skiptinemarnir munu flestir fara í sóttkví hjá fjölskyldum. Ljósmynd úr safni. mbl.is/Árni Sæberg

15 skiptinemar munu koma til landsins á föstudaginn á vegum AFS.

Nemarnir munu í veirupróf áður en þau leggja af stað til landsins, svo enginn fari smitaður í flug, og fara síðan í sóttkví við komuna. Þetta segir Sólveig Ása Tryggvadóttir, framkvæmdastjóri AFS, í samtali við mbl.is.

Hún segir að breyttar aðgerðir við landamæri, sem taka gildi á miðvikudag, hafi þvingað AFS til að vera lausnamiðað. „Við vorum búin að undirbúa þetta eins vel og hægt er,“ segir Sólveig. „Við erum að vinna úr þessu núna og það er bara að ganga betur en ég hefði trúað á sunnudaginn.“

Að sögn Sólveigar munu flestir nemendurnir fara í 4-6 daga sóttkví hjá fjölskyldum, en ekki sé það möguleiki í öllum tilvikum. Leitað sé úrræða fyrir þá sem ekki geta dvalið hjá fjölskyldum.

„Við erum að vinna með unglinga sem eru í flestum tilfellum undir 18 ára aldri. Við hendum þeim ekkert á farsóttarhótel eða eitthvað því um líkt,“ segir Sólveig. „Þau eru flest að flytja að heiman í fyrsta skipti, þannig við þurfum að taka eins vel á móti þeim og við getum með tveimur metrum.“

Nokkuð mikil aðsókn var að skiptinámi á vegum AFS á Íslandi, en vegna ástandsins þurfti að neita nemum um komu til landsins. Í staðinn mun AFS einnig taka á móti skiptinemum í byrjun næsta árs. „Þannig við förum á stjá að finna fjölskyldur fyrir það,“ segir Sólveig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert