21.400 á atvinnuleysisskrá

Eftir á að koma í ljós hver áhrifin af hertum …
Eftir á að koma í ljós hver áhrifin af hertum aðgerðum á landamærum Íslands munu verða á ferðaþjónustuna og fleiri atvinnugreinar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar var skráð atvinnuleysi í júlí 8,8% af áætluðum fjölda fólks á vinnumarkaði og hafði minnkað úr 9,5% frá því í júní. Um 21.400 manns voru á atvinnuleysisskrá, þar af um 17.100 atvinnulausir og um 3.800 í minnkuðu starfshlutfalli.

Atvinnuleysi sem tengist hlutabótaleið lækkaði úr 2,1% í 0,9% milli mánaða. Almenna atvinnuleysið jókst hins vegar aðeins, var 7,5% í júní og 7,9% í júlí.

Atvinnuleysið hefur fram að þessu þróast með álíka hætti og spáð var í vor þegar óvissan var sem mest segir í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans. Deildin spáði því að atvinnuleysi myndi ná hámarki í 13% í ágúst og september en samkvæmt nýjustu spá Vinnumálastofnunar mun það verða um 9% í ágúst og eilítið minna í september sem er töluvert undir  spá hagdeildar.

„Aðstæður í hagkerfinu hafa hins vegar breyst töluvert á síðustu dögum og því ekki útilokað að atvinnuleysi verði meira í haust en nýjustu spár gera ráð fyrir.

Atvinnuleysi vegna hlutabóta heyrir nú næstum sögunni til og var komið niður í 0,9% í júlí, samanborið við 2,1% í júní og 5,6% í maí. Þetta kerfi mun renna sitt skeið á enda í lok ágúst.

Reiknað hefur verið með að almennt atvinnuleysi aukist nokkuð fram í september enda mikið af hópuppsögnum að koma til framkvæmda síðsumars, einkum í ágúst. Þannig spáir Vinnumálastofnun því að almennt atvinnuleysi fari vel yfir 8% í ágúst, en nýjar aðstæður varðandi komu ferðamanna gætu breytt þeirri mynd eitthvað,“ segir í Hagsjá hagdeildar Landsbankans í dag. 

7.700 sagt upp í hópuppsögnum hjá 110 fyrirtækjum

Fjórar tilkynningar bárust um hópuppsagnir í júlí sem er mun minna en á síðustu mánuðum. Alls hefur um 7.700 manns verið sagt upp störfum í hópuppsögnum síðustu mánuði hjá um 110 fyrirtækjum. Flestar hópuppsagnir hafa komið úr ferðaþjónustu.

„Eftir að ferðamenn voru farnir að koma hingað aftur í töluverðum mæli hefur óvissa nú aukist með nýjum og hertum reglum um skimun við landamæri. Atvinnuleysi á því eftir að verða mikið það sem eftir er ársins og hugsanlega meira en síðustu spár gáfu til kynna,“ segir í Hagsjá Landsbankans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert