Meirihluti farþega Icelandair hefur óskað eftir breytingum á flugáætlun eða inneign hjá félaginu við niðurfellingu flugs. Félagið hefur í heildina endurgreitt rúmlega 104.000 bókanir frá öllum markaðssvæðum frá því að heimsfaraldur kórónuveiru skall á.
Á þessari stundu eru um 31.000 beiðnir útistandandi að sögn Ásdísar Ýrar Pétursdóttur, upplýsingafulltrúa Icelandair. Ásdís segir að til að setja þetta í samhengi hafi millilandaflug verið í lágmarki í alllangan tíma vegna faraldursins og niðurfellingar á flugi hafi haft áhrif á hundruð þúsunda farþega Icelandair.
Eðli málsins samkvæmt sé því um gríðarlegan fjölda mála að ræða sem þurfi að vinna úr fyrir viðskiptavini, auk þess sem meirihluti starfsmanna Icelandair var í hlutastarfi um tíma. Þess vegna hafi endurgreiðslur tekið mun lengri tíma en undir venjulegum kringumstæðum.