Einbreiðar brýr á Hringvegi verði 22 árið 2024

Þrír létust sein á árinu 2018 þegar jeppi fór út …
Þrír létust sein á árinu 2018 þegar jeppi fór út af einbreiðri brú við Núpsvötn. Endurbætur á fleiri einbreiðum brúm þykja nauðsynlegar og þarfar mbl.is/Sigurður Bogi

Gert er ráð fyrir að tveimur og hálfum milljarði króna til fækkunar einbreiðra brúa á næstu fimm árum, með það að markmiði að einbreiðar brýr á Hringvegi verði 22 árið 2024. 

Af 1.191 brú í þjóðvegakerfinu eru 677 einbreiðar, þar af voru 39 brýr á Hringveginum einbreiðar árið 2017. Í markmiðum samgönguáætlunar 2019-2023 var áherslan á að fækka einbreiðum brúm á vegum með yfir 200 bíla meðalumferð á dag allt árið, um níu á tímabilinu, eða í 30 fyrir árið 2023. 

Markmiðin voru endurskoðuð í endurbættri samgönguáætlun 2020-2024 sem lögð var fyrir Alþingi í desember síðasta árs og fjármagni bætt í fyrri áætlun til að auka umferðaröryggi. 

Þetta kemur fram í svari samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, við fyrirspurn Maríu Hjálmarsdóttur, varaþingmanns Samfylkingarinnar.

Samkvæmt svari ráðherra eru alls fjórar brýr í byggingu, sem boðnar voru út á síðasta ári, sem munu leysa af hólmi einbreiðar brýr á Hringvegi 1: Brú á Brunná austan við Kirkjubæjarklaustur, brú á Kvíá í Öræfasveit, brú á Fellsá í Suðursveit og brú á Steinavötn í Suðursveit. 

Unnið er að því að alls sex brýr á Hringvegi verði breikkaðar til viðbótar á tímabilinu 2021 til 2024 miðað við fyrirhugaðar fjárveitingar til breikkunar brúa: Hverfisfljót, Búlandsá, Gjádalsá, Hvaldalsá, Selá í Álftafirði og Krossá á Berufjarðarströnd. 

Þá verða í fjárfestingarátaki 2020-2022 sjö einbreiðar brýr breikkaðar: Hringvegur um Núpsvötn, Stóra-Laxá á Skeiða- og Hrunamannavegi, Bjarnadalsá í Önundarfirði á Vestfjarðarvegi, Botnsá í Tálknafirði á Bíldudalsvegi, Hringvegur um Skjálfandafljót, Köldukvíslargil á Norðausturvegi og Gilsá á Völlum á Skriðsdals- og Breiðdalsvegi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert