Fyrstu söluhúsin hafa verið afhent nýjum notendum við Ægisgarð í Reykjavíkurhöfn. Þau eru hluti af 400 milljóna króna uppbyggingu á svæðinu.
Gísli Gíslason, hafnarstjóri hjá Faxaflóahöfnum, segir að undirbúningur verksins hafi staðið síðan 2015, en svæðið hafi verið fremur óskipulagt og með „villta vesturs“ brag.
Húsin sjö eru hönnuð af Yrki arkitektum og eru klædd viði og gleri sem Gísli segir að kallist á við gömul hús í borginni. Þau eru leigð til fyrirtækja sem starfa í hafnsækinni ferðaþjónustu og að sögn hafa margir sýnt þeim áhuga. Þó hafi eitthvað hægst um vegna þeirrar óvissu sem ríkir um framtíð ferðaþjónustu, en Gísli segist treysta því að næsta tímabil verði „farsælt og fallegt“ við Ægisgarð.