„Sárafáir sem geti kastað fyrsta steininum“

„Mér finnst að skýringar hafi komið fram og þær haldi …
„Mér finnst að skýringar hafi komið fram og þær haldi alveg vatni þó þetta hafi vissulega verið klaufalegt,“ segir Steingrímur Sævarr Ólafsson almannatengill. mbl.is/Árni Sæberg

Vinkvennaferð sem ferðamála- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra fór í um helgina og hefur sætt mikilli gagnrýni gæti verið mikilvæg vitundarvakning fyrir almenning um að huga að sínum einstaklingsbundnu sóttvörnum, að sögn almannatengils. Flestir hafi gleymt sér á einhverjum tímapunkti í faraldri kórónuveiru og tengi við mistök ráðherrans. Heiðarleikann eigi þó alltaf að hafa í forgrunni.

„Það er rétt að viðurkenna að þetta voru mistök og ég held að allir sem að málinu komu hafi viðurkennt það. Það voru kannski örlítið klaufaleg viðbrögð að koma ekki fram algjörlega hreint í fyrstu atrennu en eftir að síðari skýringar komu fram í sambandi við kostun og tilefni ferðarinnar og svo framvegis þá sýnist mér að þetta hafi leyst nokkuð farsællega,“ segir Steingrímur Sævarr Ólafsson almannatengill spurður um álit á viðbrögðum Þór­dísar Kol­brúnar R. Gylfa­dótt­ur, ferðamála-, iðnaðar- og ný­sköp­un­ar­ráðherra, og stjórnvalda vegna umfjöllunar um vinkvennaferðina.

Höfum flest gleymt okkur andartak

Í ferðinni voru teknar myndir af vinkonunum sem ekki virtu tveggja metra regluna og hefur Þórdís Kolbrún sætt gagnrýni fyrir að fylgja ekki tilmælum um einstaklingsbundnar sóttvarnir á tímum kórónuveiru. Í morgun bárust svo fréttir af því að hluti ferðarinnar hafi verið kostaður en Þórdís Kolbrún hafi alfarið greitt fyrir sinn hluta sjálf.

Steingrímur telur að flestir geti tengt við það að hafa gleymt sér og ekki fylgt reglum og tilmælum vegna faraldursins andartak.

„Ég held að það séu sárafáir sem geti kastað fyrsta steininum í þessu. Ég held að við höfum öll setið á veitingahúsi eða í boði með vinum og gleymt okkur andartak.“

Steingrímur segir að stjórnmálamenn séu mannlegir og þannig vilji þjóðin hafa þá.

„Við viljum engin vélmenni. Þetta eru manneskjur eins og við. Það er mannlegt að gera mistök. Það besta sem þú gerir þegar þú gerir mistök er að viðurkenna þau og læra af þeim. Þetta einstaka tilfelli hefur vakið margan manninn af værum blundi þannig að ég held að þegar upp er staðið þá munum við bara hagnast á þessu.“

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir á blaðamannafundi vegna skimana á landamærunum.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir á blaðamannafundi vegna skimana á landamærunum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Málið upplýst

Eva Laufey Kjaran, fjölmiðlakona og ein vinkvennanna, skipulagði ferðina. Hún sagði í færslu á Facebook í morgun að myndir af vinkonunum tengdust ekki umræddri kostun. Steingrímur segir að ef einhver mistök hafi orðið hvað það varðar þá sé Þórdísi Kolbrúnu ekki um að kenna þar.

„Ráðherrann hittir vinkonur sínar og greiðir fyrir sig og ef einhver annar tekur mynd sem tengist kostun þá er það fyrst og fremst sá aðili sem er ábyrgur fyrir því.“

Steingrímur segir að heiðarleiki eigi alltaf að vera í hávegum hafður þegar brugðist er við klúðri sem þessu. Hann telur að heiðarleiki hafi verið hafður að leiðarljósi í kjölfar umfjöllunar um vinkvennaferðina.

„Mér finnst að skýringar hafi komið fram og þær haldi alveg vatni þó þetta hafi vissulega verið klaufalegt.“

Spurður hvort einhverjar frekari yfirlýsingar þyrftu að koma frá ráðherra vegna málsins segir Steingrímur:

„Mér sýnist þetta vera upplýst, af hálfu stjórnvalda, almannavarna, hennar sjálfar og hennar vinkvennahóps.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert