„Þetta er upp á líf og dauða fyrir okkur“

Heimilislausar konur hafa sent frá sér yfirýsingu.
Heimilislausar konur hafa sent frá sér yfirýsingu. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það ætti enginn að vera heimilislaus, hvað þá á Íslandi. En því miður erum við, hin heimilislausu, alltof, alltof mörg þrátt fyrir að það séu fjöldi húsa sem standa auð og eigendur þeirra bíða eftir að þau brenni til grunna eða hrynji til að geta byggt hótel, skrifstofuhúsnæði eða lúxusíbúðir.“

Þannig hefst yfirlýsing tíu heimilislausra kvenna sem beina orðum sínum til þeirra sem aldrei hafa neyðst til að lifa á götunni.

„Þið þurfið að vita að það að vera á götunni er ekki sjálfskapað ástand. Samt er oft komið fram við okkur eins og þetta hafi verið val og vegna þessa viðhorfs líta margir á okkur sem samfélagsmein og glæpamenn. En þetta er ekki val. Við „lendum” ekkert á götunni. Þetta er rothögg. Þetta er ekkert eins og flytja að heiman - þú mjúklendir ekkert á götunni,“ segir í yfirlýsingunni.

Á götunni snúist allt um að lifa af og það geti leitt af sér enn meiri áföll og enn meira ofbeldi. Þar sé konum nauðgað, þær séu fórnarlömb kynferðislegs ofbeldis og séu alltaf á varðbergi.

Staðan skánaði í vor vegna COVID

Þær segja heimsfaraldur kórónuveiru hafi þurft til að aðeins færri yrðu heimilislausir hér á landi. Um tíma þegar smit voru sem flest og fólki sagt að halda sig heima voru gistiskýli og Konukot höfð opin allan sólarhringinn í stað þess að vera eingöngu opin frá 10:00 - 17:00.

„Tíu konur á aldrinum 19-60 ára sem allar áttu það sameiginlegt að hafa þurft að búa á götunni í lengri eða styttri tíma fluttu í þetta tímabundna neyðarúrræði í lok apríl 2020. Við erum þessar konur. Nú þegar COVID-19 smitum hefur fækkað á Íslandi á að loka úrræðinu og henda okkur aftur út á götuna,“ segir í yfirlýsingunni.

Þær segjast þakklátar þeim sem starfi í tengslum við Konukot en segja á sama tíma að aðstæður þar séu algjörlega óboðlegar. Tólf konur þurfi að deila fjórum herbergjum og einungis ein sturta sé á svæðinu. Síðan er öllum hent út klukkan 10 á morgnanna, sama hvernig viðrar.

„Þetta er upp á líf eða dauða fyrir okkur. Skilaboðin sem þið sendið okkur með því að moka milljörðum undir stórfyrirtæki en loka þessu litla úrræði eru þau að líf okkar séu einskis virði. Því við getum lofað ykkur því að a.m.k. tvær þeirra kvenna sem hér búa verða dánar innan árs ef þessu úrræði verður lokað,“ segir í yfirlýsingunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka