Verkið á áætlun og tengivinna að hefjast

Hér má sjá svæðið sem lokunin nær til.
Hér má sjá svæðið sem lokunin nær til. Kort/Veitur

„Verkið er á áætlun, það er búið að tæma Suðuræðina og tengivinna fer að hefjast,“ segir Ólöf Snæhólm Baldursdóttir, upplýsingafulltrúi Veitna, í samtali við mbl.is um stöðu framkvæmdanna sem gerðu það að verkum að lokað var fyrir heitt vatn hjá um 50 þúsund íbúum og fjölda fyrirtækja og stofnana klukkan tvö í nótt.

Lokunin mun vara þangað til klukkan níu á miðvikudagsmorgun og því hefur verið fleygt fram að mögulega sé þetta stærsta og umfangsmesta lokun fyrir heitt vatn. Engar kvartanir hafa borist vegna framkvæmdarinnar. 

Fyrirséð afleiðing framkvæmdana var að vatnsþrýstingur myndi minnka í meðal annars í Selás. Þrýstingurinn féll þó meira en gert var ráð fyrir og Veitum bárust einhverjar kvartanir vegna þess. Það hefur hins vegar verið lagað og vatnsþrýstingur er orðinn eðlilegur aftur.

Framkvæmdirnar eru hluti af framtíðaráætlun sem kveður meðal annars á um að fleiri heimilum verði komið inn á heitavatnsleiðslur sem koma frá Hellisheiðar- og Nesjavallavirkjun en ekki úr borholum í Reykjavík og Mosfellsbæ. Þannig megi tryggja sjálfbærni þeirra viðkvæmu borhola.

Íbúar sem eru án heitavatns er bent á að hafa glugga lokaða, hafa útidyr ekki opnar lengur en þörf krefur og fikta ekki við heitavatnskrana eða heitavatnslagnir – það geti valdið slysum á fólki eða eignatjóni.

Hér má finna kort sem sýnir þau svæðið sem lokunin nær til.

Ólöf Snæhólm Baldursdóttir var gestur á upplýsingafundi almannavarna í gær.
Ólöf Snæhólm Baldursdóttir var gestur á upplýsingafundi almannavarna í gær. Ljósmynd/Lögreglan
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert