Lítil sem engin gögn benda til þess að raunverulegt samband sé milli magns veiru sem berst í einstakling og alvarleika sjúkdómsins sem hún veldur.
Þetta kemur fram í svari á Vísindavefnum við spurningunni: Valda stærri skammtar af veiru verri COVID-19-sjúkdómi?
Þar segir að tilgátan hljómi þannig að magn veirunnar sem sýkir okkur í upphafi hafi áhrif á alvarleika sjúkdóms – þeim mun meira af veirunni, þeim mun alvarlegri sjúkdómur.
Engin gögn liggja fyrir enn sem komið er sem staðfesta samband á milli magns veiru og alvarleika veikinda þegar kemur að COVID-19 og er útskýrt nánar eins og sjá má hér að neðan:
Ímyndum okkur eina veiruögn sem berst milli manna með dropum (beint eða óbeint) til þekju efri öndunarfæra. Þar sýkir veiruögnin frumu. Þegar veiruögnin er komin inn í frumuna hleypir hún erfðaefni sínu út svo hún geti fjölgað sér frekar. Fruman aðstoðar veiruna við að mynda prótín og meira erfðaefni, sem er öllu pakkað í fleiri veiruagnir og hleypt út úr frumunni. Þessi fjölgun getur verið umtalsverð og endar vanalega á því að fruman sjálf deyr og losar út veiruagnirnar sem safnast hafa upp innan hennar. Fjöldi veiruagna í þessum tilfellum er oftast um 100-200 talsins en getur þó farið upp í tugi þúsunda veiruagna. Þessar veiruagnir sýkja síðan aðrar frumur og svo koll af kolli. Að lokum má telja fjölda veiruagna í milljörðum. Þetta er kallaður veldisvöxtur (e. exponential growth) og er undirstaðan í vexti flestra veira. Það virðist síðan vera visst þak sem fjöldi veiruagna nær áður en ónæmiskerfið og líkaminn ná að bregðast að fullu við veirunni. Í ljósi þessa má áætla að lítill munur sé á því hvort einstaklingur smitist af 100 eða 100.000 veiruögnum – endanlegur fjöldi verður að öllum líkindum sá sami.
Hins vegar er þar ekki öll sagan sögð. Ef fleiri veiruagnir sýkja tiltekinn einstakling er fræðilega mögulegt að veiran þurfi styttri tíma til að vaxa og dafna innan líkamans. Þetta gæti leitt til þess að ónæmiskerfið nái ekki að bregðast nægilega hratt við þessari vaxandi vá með þeim afleiðingum að veiran nær yfirhöndinni.
Hvorar tveggja aðstæður eru mögulegar en lykilatriðið, samkvæmt svarinu, er að ekki er vitað hvað gildir fyrir COVID-19 sem og flesta aðra smitsjúkdóma.
Hins vegar er öruggara að gera ráð fyrir því að magn veirunnar skipti máli, ef ekki aðeins til að árétta mikilvægi allra inngripa sem minnka magn veiru sem berst til okkar. Notkun gríma, handhreinsun og almenn smitgát miða að því að minnka magn veira sem berst til okkar og kemur frá okkur. Hvort sem þetta minnkar einungis líkur á að smitast eða einnig líkur á alvarlegum sjúkdómi skiptir kannski ekki höfuðmáli. Aðalatriðið er að fylgja ráðleggingunum eftir bestu getu til að vernda bæði okkur og aðra, segir á Vísindavefnum.