„Nú er árið farið“

Ásberg Jónsson, stofnandi og framkvæmdastjóri Nordic Visitor.
Ásberg Jónsson, stofnandi og framkvæmdastjóri Nordic Visitor. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta er svolítið sorglegt því hlutirnir hjá ansi mörgum fyrirtækjum voru farnir að þróast jákvæðan hátt og svo var því kippt í burtu með engum fyrirvara. Það sem er kannski sorglegast er það að það hafi ekki átt sér stað neitt samtal, það skilja það allir að það þurfti að herða aðgerðir á landamærum, en það átti sér ekkert samtal stað um það hvort hægt væri að finna einhverja málamiðlun.“

Þetta segir Ásberg Jónsson, stofnandi og framkvæmdastjóri Nordic Visitor. Nýjar reglur tóku gildi á landamærunum á miðnætti í nótt og þurfa nú allir þeir sem koma til landsins að sæta tvöfaldri sýnatöku með fimm daga sóttkví þess á milli.

Ekki hægt að vinna með hertar aðgerðir

Ásberg segir að talsvert af bókunum hafi verið komið fyrir haustið. Nokkrir hafi náð að flýta ferðum sínum og komið til landsins fyrir 19. ágúst en nú séu allar aðrar bókanir í uppnámi „Þetta er eitthvað sem ekki er hægt að vinna með. Fólk leggur ýmislegt á sig í dag til að ferðast, ef það er öruggt, þá er það til í að leggja ýmislegt á sig, en fimm dagar lokað inni á herbergi, það er of mikið.“

„Nú er árið farið, alla vega, og það er bara rosalega dökkt yfir greininni í dag. Ég er með fyrirtæki sem var vel undirbúið fyrir áföll þegar það gerðist. Það er svo sem engin hætta á því að við förum á hausinn, en ég var mjög jákvæður áður en ég fór í sumarfrí,“ segir Ásberg.

Nordic Visitor sagði öllu starfsfólki sínu upp í sumar og er uppsagnarfrestur út september. „Þetta kemur á svo ofboðslega vondum tíma líka, bæði fyrir fyrirtækin og starfsfólkið, því þetta er akkúrat tímabilið sem átti að taka ákvarðanir um endurráðningar, og af þeim sem ég hef talað við þá eru flestir að huga að þessu greiðsluskjóli og ekki að endurráða nema bara „bare minimum“,“ segir Ásberg. Það sé hins vegar ekki alveg raunin hjá Nordic Visitor, sem betur fer.

Fólk átti sig ekki á því atvinnuleysi sem koma skal

„Við erum aðeins öðruvísi með það að gera, við erum ferðaskrifstofa þar sem fólk bókar með löngum fyrirvara og þá fer fólk að bóka ferðir 2021 fljótlega, þannig að ég get ekki lagt fyrirtækið og við þurfum ekki að leggja það í sama dvala og aðrir. Þú sérð það að hótel hérna í Reykjavík, það er ekkert að gera nema kannski starf fyrir einn, tvo til að taka á móti bókunum fyrir næsta ár, en það eru engin herbergi að þrífa eða gestamóttaka eða veitingastaður,“ segir Ásberg og bætir við:

„Ég veit ekki hvort yfirvöld og samfélagið átti sig á að það verður ofboðslega mikið atvinnuleysi núna í september/október. Þetta er nánast öll ferðaþjónustan að fara á bætur, og þetta eru 20 þúsund manns eða eitthvað.“

Fólk leggur ýmislegt á sig í dag til að ferðast, …
Fólk leggur ýmislegt á sig í dag til að ferðast, ef það er öruggt, þá er það til í að leggja ýmislegt á sig, en fimm dagar lokað inni á herbergi, það er of mikið, segir Ásberg. mbl.is/Hari

Ásberg þorir þó ekki að segja til um það á þessum tímapunkti hversu margir verði endurráðnir hjá Nordic Visitor. „Við erum að setjast yfir það núna í dag, við stjórnendur. Við erum ágætlega fjármögnuð og ef við náum ekki að ráða eins mikið fyrir lok uppsagnartímabils þá er það markmiðið að reyna að koma fólki aftur í vinnu fljótlega, á næstu mánuðum eða fyrir sumarið 2021 alla vega.“

Kemur annað ár eftir þetta 

Að lokum segir Ásberg að mikill doði sé yfir fólki í ferðaþjónustunni. „Áfallið átti sér stað í vor að miklu leyti, og það er hálfgerð uppgjöf núna. Það voru margir búnir að sætta sig við það að árið væri bara farið. Svo kemur smá búst í móralinn í júní, landið opnað og svo fóru Íslendingar að ferðast duglega, en svo gerist þetta. Þá er komið bara svona jæja ókei, ég hef ekki orku í það að gera mikið meira. Við bara förum í þetta greiðsluskjól og segjum öllum upp.

En segi ég nú við alla, það kemur annað ár eftir þetta ár og ferðamenn koma aftur til landsins. Nú er það bara spurning hvenær. Nú er bara að reyna að þrauka gegnum þetta og halda fyrirtækjunum á einhvers konar lífi í einhverjum dvala og svo einhvern tíma kemur þetta til baka.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert