Samninganefndir Eflingar og Samtaka sjálfstæðra skóla (SSSK) funduðu hjá Ríkissáttasemjara í dag. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Eflingu.
Lagðar voru fram tillögur til lausnar á kjaradeilu félagana, en þann 15. maí lagði Efling fram drög að fullbúnum samningi sem fól í sér vísun í núgildandi samning Eflingar við Reykjavíkurborg.
Í tilkynningunni segir að fyrir liggi að festa í kjarasamningi núverandi kjör starfsfólks á einkareknum leik- og grunnskólum, og hafi þau „árum saman tekið mið af samningum Eflingar við Reykjavíkurborg.“ Efling hafi ekki gert neinar kröfur umfram samninginn við Reykjavíkurborg.
Síðasti samningafundur var haldinn 25. júní síðastliðinn, en þar hafi SSSK lagt fram athugasemdir sem ræddar voru á fundinum í dag. Boðað hefur verið til annars fundar 2. september næstkomandi samkvæmt ákvörðun Ríkissáttasemjara.
„Málið er í eðli sínu afar einfalt: það þarf að staðfesta í gildum samningi að kjör Eflingarfólks hjá sjálfstæðum skólum séu þau sömu og hjá Reykjavíkurborg. Við trúum ekki öðru en að á næsta samningafundi komumst við langleiðina að samkomulagi,“ er haft eftir Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formanni Eflingar, í tilkynningunni.