Eiginmaður Öldu Hrannar metinn hæfastur

Lögreglan á Suðurnesjum.
Lögreglan á Suðurnesjum. mbl.is/Sigurður Bogi

Rannsóknarlögreglumaður hjá lögreglunni á Suðurnesjum telur þörf á að skoða hvort spilling sé rótgróin í ráðningarmálum lögreglunnar í landinu. Hann telur að brotið hafi verið á sér við ráðningu innan lögreglunnar á Suðurnesjum árið 2018 þegar Alda Hrönn Jóhannsdóttir, yfirlögfræðingur hjá lögreglunni á Suðurnesjum, gaf neikvæða umsögn um lögreglumanninn án þess að hún hafi verið á lista yfir hans umsagnaraðila. Hann var ekki látinn vita af umsögn Öldu Hrannar og komst ekki að þessu fyrr en nýlega. Lögreglumaðurinn, Eiríkur Valberg, hefur leitað til lögmanns til að gæta réttar síns, að því er fram kemur í frétt Fréttablaðsins.

Alda Hrönn er í veikindaleyfi og vildi ekki tjá sig um málið þegar mbl.is leitaði viðbragða hjá henni. Í annarri frétt Fréttablaðsins er greint frá því að eiginmaður Öldu hafi verið metinn hæfastur í starf yfirlögregluþjóns á Keflavíkurflugvelli vorið 2019 af Helga Þ. Kristjánssyni mannauðsstjóra lögreglunnar á Suðurnesjum sem Eiríkur segir hliðhollan Öldu. Nám eiginmannsins, Gests K. Pálmasonar, í markþjálfun var í umsóknarferlinu metið til jafns við lögfræði- og mannauðsstjóramenntun annars umsækjanda sem hafði talsvert víðtækari menntun en Gestur.

Treystir öðrum til að taka við boltanum

Bæði Alda og Helgi eru í veikindaleyfi. Alda vildi ekki tjá sig um það hvers vegna hún væri í veikindaleyfi þegar mbl.is hafði samband við hana en ekki náðist í Helga við vinnslu fréttarinnar. Ólafur Helgi Kjartansson, fráfarandi lögreglustjóri á Suðurnesjum, óskaði eft­ir því að veik­inda­leyfi Öldu og Helga yrðu skoðuð nán­ar af dómsmálaráðuneytinu en þau fóru bæði í veikindaleyfi án þess að láta lögreglustjórann vita af því.

Ólafur Helgi hefur verið færður til í starfi og hefur störf hjá dómsmálaráðuneytinu 1. september næstkomandi.

„Nú er ég að fara frá þessu ágæta embætti þar sem ég hef verið í sex ár og ég ætla ekkert að tjá mig um innanhússmálefni þess. Það verða aðrir að taka við sem ég ber fullt traust til. Ég mun sakna þess ágæta samstarfsfólks sem hefur unnið með mér,“ sagði Ólafur Helgi í samtali við mbl.is, inntur eftir viðbrögðum við fréttum dagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert