Smitaður á hóteli þar sem ríkisstjórnin snæddi

Hótel Rangá.
Hótel Rangá.

Starfsmaður á Hótel Rangá þar sem ríkisstjórnin snæddi kvöldverð á þriðjudagskvöld hefur greinst með kórónuveiruna.

Í tilkynningu frá hótelinu kemur fram að því hafi verið lokað tímabundið vegna kórónuveirusmits. 

Róbert Marshall, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar, segir að starfsmaðurinn hafi aldrei komið inn í herbergið þar sem ríkisstjórnin snæddi kvöldverðinn.

„Að höfðu samráði við sóttvarnarlækni þykir ekki ástæða til að grípa til sérstakra ráðstafana hvað ráðherra ríkisstjórnarinnar varðar,“ segir Róbert, en RÚV greindi fyrst frá málinu.

Smitrakningar og sýnatökur eru í gangi á Hótel Rangá. Vegna þessa verður hótelið lokað næstu daga á meðan umfang er upplýst og sótthreinsun fer fram. Friðrik Pálsson, eigandi Hótels Rangá, kvaðst í samtali við mbl.is ekkert vilja tjá sig um smitið fyrir utan það sem kom fram í tilkynningunni. 

Ráðherrar úr ríkisstjórninni.
Ráðherrar úr ríkisstjórninni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekki fylgst sérstaklega með heilsu ráðherra

Að sögn Róberts Marshall spurðist smitið út á tíunda tímanum í kvöld. Aðspurður segir hann að ekki standi til að fylgjast sérstaklega með heilsu ráðherra á næstunni vegna smitsins. Hann bætir við að frekar strangar ráðstafanir séu í gildi, til dæmis í forsætisráðuneytinu þar sem mjög takmarkað sé hverjir koma inn í bygginguna þar sem forsætisráðherra starfar. Mikill aðskilnaður sé jafnframt á milli deilda.

Engin áætlun er uppi ef ráðherra smitast af veirunni, að sögn Róberts. Ef ráðherra smitaðist myndi annar ráðherra í ríkisstjórninni gegna hans stöðu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert