Vonir standa til að hægt verði að opna Dýrafjarðargöng í október. Til stóð að opna göngin 1. september, en heimsfaraldur kórónuveiru og illviðri í vetur hefur sett strik í reikninginn.
Guðmundur Rafn Kristjánsson, fulltrúi Vegagerðarinnar í verkinu, segir að göngin séu farin að líta vel út, en að enn sé of snemmt að segja til um dagsetningu fyrir opnun ganganna. „Þetta er aðeins á eftir áætlun,“ segir Guðmundur.
„Við vonumst til að geta opnað í október, en við þurfum að fresta þessu um alla vega mánuð vegna veirunnar og veðurs. Veðrið í vetur hafði talsverð áhrif, það var svo vont veður í Dýrafirði að það var ekki hægt að komast inn í göngin í nokkra daga. Svo hafa orðið tafir á aðföngum og erlendir starfsmenn þurft að fara út af veirunni,“ segir Guðmundur í Morgunblaðinu í dag og bætir við að síðustu forvöð fyrir opnun séu áður en snjó tekur að festa.