Álftanes og hluti Garðabæjar heitavatnslaus

Frá Álftanesi.
Frá Álftanesi. mbl.is/Golli

Viðgerð á heitavatnsleka í Hafnarfirði veldur því að heitavatnslaust er við Álftanes, Sjáland í Garðabæ og önnur nærliggjandi hverfi.

Reiknað er með því að heitt vatn verði aftur komið á svæðið klukkan tvö í nótt, að því er segir á vefsíðu Veitna.

„Við erum búin að vera að vinna í þessari viðgerð í Hafnarfirði. Til þess að geta klárað hana þurfti að loka fyrir hjá Álftanesi. Við það fer lítill hluti Garðabæjar út,“ segir Páll Guðbrandsson, upplýsingafulltrúi Veitna.

Skrúfi fyrir heitavatnskrana

Verið er að senda íbúum smáskilaboð um lokun á heitu vatni, auk þess sem upplýsingar eru sendar á íbúasíður á netinu. Að sögn Páls verða allir upplýstir eins vel og hægt er en allar nýjustu upplýsingar verða settar á vefsíðu Veitna.

„Þetta ætti að ganga nokkuð hratt ef allt gengur vel,“ segir Páll.

Fólki er bent á að hafa skrúfað fyrir alla heitavatnskrana til að draga úr hættu á slysi eða tjóni þegar vatnið kemst á að nýju.

Uppfært: Setbergshverfið heitavatnslaust

Setbergshverfið í Hafnafirði mun verða heitavatnslaust eftir klukkan 23.00, að því er fram kemur á vef Veitna. Ástæðan er sögð sú að verið sé að reyna að komast í að gera við leka í stórri lögn. Mikið rennsli sé úr lögninni sem stöðvi viðgerðina og þurfi því að loka leiðum að henni til að stoppa rennslið.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert