Vel gekk að koma Jökli SK-16 á flot eftir hádegið í gær. Skipið hafði legið á botninum í Hafnarfjarðarhöfn frá því að það sökk skyndilega sl. mánudagskvöld.
Köfunarþjónustan annaðist verkið og að sögn Helga Hinrikssonar framkvæmdastjóra hefur undirbúningur staðið alla vikuna.
Hann segir að tímanum hafi verið varið í að koma fyrir dælum í lest bátsins og koma stroffum undir kjöl hans. Á háfjöru í gær hafi svo dæling hafist á sama tíma og krani lyfti undir með bátnum. Helgi segir að allt hafi gengið snurðulaust fyrir sig og Jökull hafi flotið innan við klukkustund eftir að aðgerðir hófust.
Spurður um orsakir þess að báturinn sökk segir hann að það hafi enn ekki komið í ljós. Engin ummerki hafi fundist um augljósan leka, s.s. í gegnum botnloka eða þil bátsins og því ekki hægt að segja til um að svo stöddu. Hann segir bátinn hafa verið afhentan eiganda sínum en dælur séu enn tengdar við hann til að fyrirbyggja að sjór safnist fyrir í bátnum.