Hefur mikla trú á bóluefnaframleiðandanum

„Það er mikil og sterk samfélagsvitund í þessum iðnaði akkúrat …
„Það er mikil og sterk samfélagsvitund í þessum iðnaði akkúrat núna sem ég hef aldrei séð áður og er svolítið hissa á þessu augnabliki en mér finnst það ótrúlega flott,“ segir Kári Stefánsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar (ÍE) hefur mikla trú á sænsk-breska bóluefnaframleiðandanum sem útlit er fyrir að Íslendingar fái bóluefni frá með milligöngu Svía. Forstjórinn, Kári Stefánsson, telur að bóluefni verði tilbúið í lok þessa árs eða byrjun þess næsta og að COVID-19-faraldrinum ljúki í lok næsta árs. 

Venjulega tekur 5-7 ár að þróa bóluefni en Kári segir að vegna samstarfs lyfjafyrirtækja og viðbragða yfjaeftirlitsstofnana virðist mögulegt að þróa bóluefni við COVID-19 á mun skemmri tíma.

„Ég held áfram að vera mjög bjartsýnn á að við fáum bóluefni í lok þessa árs eða byrjun þess næsta. Ég spái því að þessi faraldur COVID-19 verði búinn í lok næsta árs,“ segir Kári.

Það hljómar eins og svolítið mikil bjartsýni?

„Nei. Mér finnst það lógískt miðað við það sem ég veit núna. Þessi veira er búin að vera rétt um átta mánuði í mannheimum. Við erum komin langt á leið með að búa til alls konar lyf til þess að takast á við sjúkdóminn. Bóluefni sem venjulega tekur 5-7 ár að búa til virðist ætla að vera tilbúið í lok þessa árs eða byrjun næsta,“ segir Kári sem telur tvær meginástæður fyrir því að þróun bóluefnisins fleygi fram.

Nýmæli hvernig eftirlitsstofnanir taka þátt

„Hin ýmsu fyrirtæki hafa snúið bökum saman og svo er hitt. Þær stofnanir sem hafa eftirlit með lyfjaiðnaðnum hafa tekið þátt í því að ýta þessu áfram í stað þess að vera að ýta á móti, sem er ansi flott vegna þess að þó svo að það felist svolítil hætta í bóluefninu og lyfjunum þá stafar enn meiri hætta af faraldrinum sjálfum. Það eru nýmæli hvernig FDA og evrópska lyfjastofnunin eru að taka þátt í þessu.“

Í gær bárust fregnir af því að sænsk stjórn­völd myndu hafa milli­göngu um sölu á bólu­efni til Íslands í gegn­um sam­starfs­verk­efni Evr­ópu­sam­bands­ins. Það snýr að kaup­um á 300 milljónum skammta af bólu­efni frá sænsk-breska fyr­ir­tæk­inu AstraZeneca, að því gefnu að bólu­efnið stand­ist próf­an­ir.

Bindur mestar vonir við AstraZeneca

Kári segist þekkja vel til AstraZeneca og segir að þróun bóluefnis hjá fyrirtækinu sé komin vel á veg. 

„Þeir eru að vinna í samvinnu við Oxfordháskólann. Þeirra bóluefni er það bóluefni sem ég bind kannski hvað mestar vonir við þótt ég bindi vonir við fleiri. Ég þekki vel til þeirra vísindamanna sem standa að þessu og veit hvers þeir eru megnugir en ég er býsna vongóður þegar kemur að þessu.“

Kári nefnir að stór lyfjafyrirtæki eins og AstraZeneca hafi fram að þessu verið „erfið“ og verðlagt lyf sín mjög hátt. Nú sé staðan önnur.

„Nú hafa þau snúið bökum saman og eru búin að heita því að þau ætli ekki að selja bóluefni eða lyf til þess að hafa af því gróða heldur til þess að taka þátt í því að berjast við þennan faraldur,“ segir Kári og bætir við:

„Þau fyrirtæki sem hafa mest afl til þess að framleiða svona lagað hafa lýst sig reiðubúin til þess að taka við því að framleiða bóluefni sem önnur fyrirtæki hafa búið til. Það er mikil og sterk samfélagsvitund í þessum iðnaði akkúrat núna sem ég hef aldrei séð áður og er svolítið hissa á á þessu augnabliki en mér finnst það ótrúlega flott.“

Mögulegt að hver þurfi tvo skammta

Kári skýtur á að Íslendingar muni þurfa bóluefni fyrir 60% Íslendinga eða ríflega 200.000 skammta af bóluefni til að ná hjarðónæmi þótt það sé ekki nákvæm tala. Hann segir þó sannarlega mögulegt að hver einstaklingu muni þurfa tvo skammta af bóluefni. 

„Sá möguleiki er svo sannarlega fyrir hendi vegna þess að fréttir af tilraunum með sum bóluefni hafa verið þannig að þau kalli á að það séu tveir skammtar.“

Kári segist aðspurður ekki gera ráð fyrir því að íslensk stjórnvöld séu bara að veðja á þetta eina fyrirtæki hvað bóluefni varðar. 

„Þau eru að byrja að semja eða þreifa fyrir sér um það hvernig við getum fengið bóluefni og mér finnst ósköp eðlilegt að byrja á því að tala við við AstraZeneca vegna þess að það eru flestir sammála um að þeirra verkefni sé að fleygja fram langt umfram vonir. Svo mér finnst [íslensk stjórnvöld] vera að gera nákvæmlega rétta hluti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert