Miklar áhyggjur af lífríki Hvítár

Víða er leir og drulla á eyrum og bökkum.
Víða er leir og drulla á eyrum og bökkum. Ljósmynd/Kristrún Snorradóttir

Kristrún Snorradóttir hefur miklar áhyggjur af áhrifum flóðsins á lífríkið í Hvítá, en hún hefur í um 20 ár búið á Laxeyri við Hvítá skammt frá Hraunfossum þar sem hún rekur veitingastað.

Hún fór upp með ánni á miðvikudag og sá þá tvo dauða laxa sem hafði skolað á land. Í gær sá hún ekki fleiri fiska, en vargfugl hafði gert dauðu fiskunum góð skil.

„Laxinn kemst ekki upp fyrir Barnafoss og þar rétt fyrir neðan sá ég dauðan fisk. Þótt maður sjái nokkra dauða laxa á stuttum kafla þá segir það lítið því öðru getur hafa skolað niður ána með drullunni alla leið niður að ósi. Svo er viðkvæmur bleikjustofn í Hvítá sem gengur inn í kaldavermslárnar til að hrygna. Hann gæti hafa farið illa út úr þessum ósköpum,“ segir Kristrún.

Hún segir að á mánudag hafi byrjað að vaxa í ánni og hún orðið dekkri á lit og hálfþykk er leið á. Hamfarirnar hafi síðan orðið um nóttina þegar þrefaldaðist í ánni, langt umfram það sem megi skýra með hlýindunum undanfarið, og hækkaði um hálfan annan metra í ánni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert