„Samfélagið álítur það ekki lengur nóg að gefa barni mat og húsaskjól. Kröfurnar á foreldra eru orðnar miklu víðtækari nú til dags,“ segir Auður Magndís Auðardóttir, aðjúnkt og doktorsnemi á Menntavísindasviði HÍ, í samtali við mbl.is. Hún og Annadís Greta Rúdólfs-dóttir, dósent á Menntavísindasviði halda erindið Kófið, fjölskyldan og kynin á ráðstefnunni Veirur, varnir og viðbrögð: Heilbrigði þjóðar og samfélags sem haldin er í dag.
Í erindinu verður sagt frá niðurstöðum rannsóknar sem fram fór á vormánuðum 2020 þegar hvað mestar takmarkanir voru á samkomum og skólahaldi hérlendis vegna COVID-19 heimsfaraldursins. Gögnum var safnað með sögulokaaðferð (story-completion method) en alls söfnuðust 97 sögur.
„Við vitum að það eru meiri og meiri kröfur á foreldra og svo kemur þetta „kóf-ástand“ þar sem lítill skóli er í boði í nokkrar vikur í vor,“ útskýrir Auður. Hún telur að rannsóknin veiti mikilvæga innsýn inn í á hvaða hátt Íslendingar hugsuðu um fjölskyldulíf á tímum strangra samkomutakmarkana.
Sögulokaaðferð snýst í stuttu máli um það að fólk fær upphaf að sögu sent til sín; ástandið í kófinu í vor. Helmingur þátttakanda túlkaði föður sem átti tvö börn á grunnskólaaldri og hinn móður í sömu sporum. Allir fá fregnir af því að börnin fá litla skólavist næstu vikurnar og í framhaldi koma póstar frá skólanum um heimaverkefni og hvað sniðugt væri að gera heima.
„Þátttakendur eru frelsaðir undan því að að þurfa að segja frá eigin fjölskyldulífi og eigin reynslu. En á sama tíma vitum við að skáldskapur er alltaf grundvallaður í samfélagsgerðinni sem hann verður til í. Þú getur ekki notað eitthvað sem hefur enga samsvörun í samfélaginu. Ef við hefðum beðið fólk í Namibíu að skálda enda á söguna hefðum við fengið allt aðrar sögur,“ segir Auður.
Hún segir að niðurstöðurnar sýni skýr átök á milli umönnunar og launaðrar vinnu auk núnings þátttakenda, sem einkum voru háskólamenntaðar konur, við hinn hefðbundna föður sem fyrirvinnu.
„Við vitum það frá fyrri rannsóknum að konur axla meiri ábyrgð á heimilinu og það kom í ljós í þessum skálduðu sögum að fólk átti auðveldara að sjá fyrir sér að konan væri verkstjórinn og væri að stýra þessu öllu. Það komu margar sögur þar sem skrifað var um átök milli föður og móður þar sem móðirin dró vagninn og reyndi að fá föðurinn með sér í lið,“ segir Auður og heldur áfram:
„Faðirinn var þá yfirleitt með stærðar heyrnatól á höfðinu og áttaði sig ekki á því að hann var búinn að útiloka börnin úr lífi sínu. Þetta ástand var einnig látið sýna þessum karlrembufeðrum lexíu þar sem þeir héldu til að mynda að eitthvað yrði ekkert mál en svo hrynur allt; af því þeir átta sig ekki á því hversu mikil vinna fer fram á heimilinu. Það var greinlegur undirliggjandi pirringur hjá þátttakendum sem skrifuðu út í þessar týpur sem komu svona út.“
Nánar er hægt að lesa um niðurstöður rannsóknarinnar í grein Auðar og Önnudísar sem birtist í tímaritinu Gender, Work and Organization undir titilnum Chaos ruined the children’s sleep, diet and behavior: Gendered discourses of family life in pandemic times.