Uppruni smitsins sem kom upp á hótel Rangá og varð til þess að flestir starfsmenn hótelsins þurftu að fara í sóttkví og ríkisstjórnin í skimun er óljós. Því er á huldu hvort smitið hafi komist inn á hótelið með starfsmanni eða gesti. Þetta staðfestir Jóhann K. Jóhansson samskiptastjóri almannavarna í samtali við mbl.is. Sömuleiðis er ekki ljóst hvort um sé að ræða sama afbrigði kórónuveirunnar og hefur gengið á milli fólks í annarri bylgju faraldursins hérlendis eða nýtt afbrigði.
Átta þeirra tíu smita sem greindust í gær má rekja til smitsins á Hótel Rangá en þó er einungis einn starfsmaður smitaður. Spurður hverjir hinir smituðu sem tengjast því smiti séu segir Jóhann að þeir gætu til dæmis verið gestir eða starfsfólk sem tengist hótelinu án þess að starfa þar með beinum hætti.
Nú er unnið að því að kanna hvort um sé að ræða sama afbrigði veirunnar og hefur gengið á milli fólks í annarri bylgu faraldursins hérlendis eða eitthvað nýtt, að sögn Jóhanns sem segir smitrakningu í vinnslu.
Allir starfsmenn hótelsins fóru í skimun í morgun en þeir eru um 30 talsins. Þá eru flestir starfsmannanna í sóttkví.
Ríkisstjórnin fékk að vita í morgun að stærstur hluti hennar teldist til ytri hrings hugsanlegs smithóps í tengslum við Hótel Rangá, þar sem ríkisstjórnin snæddi hádegisverð síðastliðinn þriðjudag.