Enn stendur til að reyna að fá gerða afsteypu af verki listakonunnar Nínu Sæmundsson Spirit of Achievement (Afrekshugur) og setja upp á Hvolsvelli.
Forgöngumaður hugmyndarinnar, Friðrik Erlingsson rithöfundur, sem situr í menningarnefnd Rangárþings eystra, segir öll gögn tilbúin í höndum sveitarstjórnar, þótt ekki sé búið að fullfjármagna framkvæmdina. Ef til vill megi kenna núverandi Covid-rekstrarerfiðleikum um tafir á því að afsteypa af verkinu verði sett upp í héraðinu.
Listaverk Nínu hefur verið yfir aðaldyrum hins glæsilega Waldorf Astoria-hótels við Park Avenue í New York frá því að byggingin var reist í byrjun fjórða áratugar síðustu aldar. Nú stendur yfir endurbygging hótelsins og er listaverkið í geymslu á meðan. Friðrik hefur verið sambandi við forráðamenn hótelsins sem tekið hafa erindinu vel, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.