Gamla Gullborg úr Vestmannaeyjum fær í kvöld nýtt hlutverk sem tónleikasvið. Skipið hefur síðustu ár staðið við gömlu höfnina í miðbæ Reykjavíkur, í bakgarði barsins Barion-Bryggjan og í kvöld verður þar haldið bryggjuball.
Þemað er aldamótin og munu tónlistarmennirnir Hreimur, Jónsi, Birgitta Haukdal, Ragnheiður Gísladóttir, Gunni Óla, Valur og Íris koma fram á tónleikapalli sem hefur verið komið fyrir á dekki skipsins.
Sigmar Vilhjálmsson, eigandi Bryggjunnar, segir í samtali við Morgunblaðið að vegna sóttvarnareglna hafi aðeins hundrað sæti verið í boði og eru þau öll orðin frátekin, en frítt var inn á viðburðinn. Tónleikarnir verða einnig í beinni útsendingu á Stöð 2.