Það var fullorðinn maður á gangi sem fann líkið við Hólahverfi í Breiðholti laust fyrir hádegi í gær. Hann hafði verið á gangi í skógi neðan við hverfið þegar hann kom að líkinu og hafði samband við lögreglu. Talið er að maðurinn hafi verið í sveppaleit.
Þetta staðfestir Gunnar Hilmarsson, aðalvarðstjóri lögreglustöðvarinnar á höfuðborgarsvæðinu.
Líkið fannst í brekku við Erluhóla á svæði sem er gróðri þakið og því ekki ósennilegt að líkið hafi verið þar um nokkurra mánaða skeið.
Ekki er talið að andlátið hafi borið að með saknæmum hætti en ríkislögreglustjóri og lögreglan á höfuðborgarsvæðinu vinna enn að því að bera kennsl á manninn. Ekki fást nánari upplýsingar um málið að svo stöddu.