Sighvatur Bjarnason
„Það er ekki einhugur innan ríkisstjórnar um þetta mál,“ segir Helga Vala Helgadóttir, formaður velferðarnefndar Alþingis um frumvarp til breytingar á lögum er varða svonefnd hlutdeildarlán.
Markmið lánanna er að auðvelda tekju- og eignalitlum einstaklingum að eignast sína fyrstu íbúð og er hluti af yfirlýsingu um stuðning stjórnvalda við „lífskjarasamninginn“. Framganga þessa máls er talin vega þungt í forsendum þess samnings og hafa flest af stærri hagsmunasamtökum landsins látið sig málið varða. T.d. segir í umsögn ASÍ til velferðarnefndar að samtökin leggi „þunga áherslu á að málið verði afgreitt frá Alþingi á yfirstandandi þingi“.
Vilhjálmur Árnason, Sjálfstæðisflokki, sem situr í velferðarnefnd, segir að eitt af mikilvægari málum sé að tryggja jafnræðisreglu meðal þeirra sem vilja komast inn í kerfið. Það megi ekki byggja á „fyrstir koma, fyrstir fá“ og þar verði að finna lausn. Hann nefnir einnig að huga þurfi að lánstíma, en 25 ára hámark geti útilokað þá tekjulægstu að ósynju og réttara væri að skoða lán til 40 ára.
Helga leggur áherslu á að kerfið megi ekki vera of flókið og segir of margar girðingar geta gert það að verkum „að enginn komist inn“, að því er fram kemur í umfjöllun um þessi mál í Morgunblaðinu í dag.