„Í markaðsherferðinni, þar sem útlendingum er boðið upp á að öskra sig hása á Íslandi, og stjórnvöld leggja nafn sitt við, kristallast þekkingarleysið og vandinn sem við stöndum frammi fyrir,“ segir dr. Valdís Ingibjörg Jónsdóttir, talmeina- og raddfræðingur, sem berst fyrir bættri raddheilsu þjóðarinnar. Og mun ekki unna sér hvíldar fyrr en hún hefur náð eyrum ráðamanna og röddin verður skilgreind sem lýðheilsa.
„Auðvitað getur það að öskra verið streitulosandi en á móti kemur að það hefur mjög slæm áhrif á röddina. Þess vegna er ég, sem menntaður raddfræðingur, lögð af stað í enn eina herferðina til að vekja athygli á mikilvægi þess að verja og vernda röddina. Ég er búin að berjast í þessu í tuttugu ár en er hvergi af baki dottin; er svona eins manns her eins og Don Kíkóti á sinni tíð.“
Talið er að um þriðjungur vinnuafls þjóðar framfleyti sér á því að leigja röddina út í atvinnuskyni. Raddveilur eins og langvarandi hæsi, ræma, raddbrestir, lítið raddþol, kökktilfinning í hálsi, raddþreyta við lestur, söng eða samræður hafa reynst vera algengar meðal þeirra sem nota röddina sem atvinnutæki. Ástæðan fyrir raddveilum hefur fram til þessa fyrst og fremst verið rakin til vanþekkingar á líffærafræði raddar, raddheilsu og raddvernd.
Valdísi rann blóðið til skyldunnar og fór að kynna sér almenna raddheilsu kennarastéttarinnar. Niðurstaðan var sú að hún væri alls ekki nógu góð, ekkert frekar en annars staðar. „Þetta er alþekkt vandamál um allan heim, raddvandræði kennara,“ segir Valdís og bætir við að það eigi ekki síst við um leikskóla- og grunnskólakennara enda starfi þeir í mun háværara umhverfi en framhalds- og háskólakennarar og þurfi fyrir vikið oftar að brýna raustina.
Eitt af því fyrsta sem Valdís gerði var að taka orðið rödd sem slíka út úr jöfnunni enda er það ekki hún sem bilar, ekkert frekar en gangurinn, heldur eru það líffærin sem gera okkur kleift að tjá okkur – raddfærin og talfærin. Röddin er einfaldlega afurð.
Skoðum þetta aðeins betur. Ef við förum út að ganga eða hlaupa og erum alltaf að drepast í ökklunum á eftir þá er það ekki gangurinn eða hlaupið sem slíkt sem er vandamálið, heldur hvernig við beitum líkamanum, óheppilegir skór eða annar búnaður. Sama máli gegnir um röddina, það er beitingin sem veldur vandanum. Enginn leitar sér hjálpar með „bilaðan gang“ frekar en „bilaða rödd“. „Þess vegna segi ég: Að nota orðið rödd eins og er gert er villandi.“
Nánar er rætt við Valdísi í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.