Skool Beans er glænýtt kaffihús í Vík í Mýrdal. Í gömlum amerískum skólavagni er gott að drekka eðalkaffi, te og súkklaðiskot.
Það er ys og þys á kaffihúsinu Skool Beans í Vík í Mýrdal. Þetta óvenjulega kaffihús er í gömlum gulum amerískum skólastrætisvagni og er engu líkt. Eigandinn, hin breska Holly Keyser, tekur vel á móti gestum og gangandi og kaffiilmurinn liggur í loftinu. Skilti við dyr varar við lágri lofthæð og minnir um leið fólk á að spritta sig. Í einu horni logar glatt í arni og er stemmningin notaleg. Kötturinn Jeffrey þvær sér hátt og lágt og yljar sér við hitann frá eldinum.
Holly býr til kaffi og beyglu handa blaðamanni sem spyr hvað í ósköpunum hún sé að gera á hjara veraldar að búa til kaffi. Holly segist hafa verið lögregluþjónn í heimalandi sínu í áratug áður en hún flutti til Ástralíu, en þar lærði hún til kaffibarþjóns. Ævintýralöngun dró hana svo til Íslands.
„Í Ástralíu uppgötvaði ég gildi þess að gefa fólki gott kaffi. En ég vildi komast aðeins nær Englandi þannig að ég flutti til Íslands fyrir þremur árum. Hér var mér boðin vinna sem jöklaleiðsögumaður. Ég var í leit að ævintýri,“ segir Holly.
„Ég sá þennan bilaða strætó og keypti hann á hundrað þúsund kall og gerði við hann. Það eru nú tvö ár síðan en þetta verkefni hefur tekið þennan tíma. Ég gerði sjálf upp strætóinn með góðri hjálp frá vinum hér,“ segir hún og segir samfélagið á Vík engu líkt.
Þrátt fyrir kórónuveirufaraldur ákvað Holly að opna kaffihúsið Skool Beans nú í byrjun ágúst.
„Sólarhring eftir að nýjar Covid-reglur voru settar hér um mánaðamótin, opnaði ég. Og það hefur gengið vonum framar,“ segir Holly og brosir á bak við grímuna.
Holly segir að að hugmyndin hafi kviknað vegna þess að hún varð fyrir miklum vonbrigðum þegar hún pantaði sér kaffi eða te úti á landi og ákvað því að bæta góðu kaffihúsi inn í annars skemmtilegu veitingahúsaflóruna í Vík.
„Ég hafði búið í Melbourne en þar er mikil gróska í matarvögnum. Þarna eru færir kokkar sem hafa keypt sér matarvagna og reiða fram eðalmat. Hér á landi er matarvagnamenningin önnur þar sem veðrið setur strik í reikninginn. Mig langaði að nota hugmyndina en breyta henni þannig að fólk gæti komið inn og fengið virkilega gott kaffi og eitthvað gott að borða,“ segir hún.
„Ég hef sem sagt sameinað kaffihús og matarvagn. Hér er pláss fyrir sextán manns í sæti en fólk getur líka tekið með sér kaffi og mat í bílinn í gegnum lúgu,“ segir Holly og er alsæl með viðtökurnar.
„Þetta hefur kostað blóð, svita og tár en mér finnst ég heppnasta stúlkan í heiminum.“
Mikil áhersla er lögð á fyrsta flokks kaffi og te í Skool Beans.
„Allar kaffibaunir eru lífrænar og er ég með tvær tegundir bauna. Aðra tegundina rista ég sjálf. Svo flyt ég inn frábær og óvenjuleg te. Ég vildi hafa matseðilinn einfaldan og býð upp á beyglur, múffur, kleinuhringi og smákökur. Með beyglunum er hægt að fá mjög spennandi osta eða húmmus og sultur. Ég býð einnig upp á mjög sérstök súkklaðiskot, úr bæði dökku og hvítu súkkulaði og leik mér gjarnan að sérstökum brögðum,“ segir hún og gefur blaðamanni skot af hvítu súkkulaði með sítrónu og pipar. Afar ljúffengt!
Gulbröndótti kötturinn Jeffrey vekur mikla lukku hjá gestum Skool Beans en hann mætir þangað daglega og sefur gjarnan við arineldinn.
„Hann heitir fullu nafni Jeffaríus Edwardíus fyrsti, því hann er sannur hefðarköttur, og gestrisinn líka. Ég á þennan kött og hann skottast hingað í strætóinn daglega. Fólk elskar Jeffrey, en auðvitað spyr ég fólk hvort það sé með ofnæmi og ef svo er, fer ég með hann út. En hann tengir fólk saman; það fer oft að ræða saman vegna hans.“
Holly hefur varla undan og bæði Íslendingar og erlendir ferðamenn lofa kaffið hennar Hollyar.
„Ég vil að allir labbi hér út brosandi.“
Ítarlegt viðtal er við Holly í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.