Raðir mynduðust við sýnatökutjald Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu við Suðurlandsbraut í dag.
Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir að um skipulagsmál sé að ræða en ekki óvenjumargar sýnatökur.
„Það eru frekar mörg sýni sem á að taka í dag, aðeins fleiri en í gær, og svo er fólk kannski ekki alveg nákvæmlega á réttum tíma svo skipulagið getur aðeins riðlast. Fólk er oft í fyrra fallinu og þá getur verið smá mikið svona til að byrja með,“ segir Óskar.
„Við bættum við fólki svo að þetta ætti að geta gengið aðeins hraðar.“
Óskar segir að um helgar séu mörg einkennasýni tekin og svo hjá þeim sem fara í seinni skimun eftir komuna til landsins. Hann segir þörfina fyrir starfsfólk í Keflavík vera minni en var og því sé verið að flytja fólk þaðan.
Áætlað er að enn fleiri sýni verði tekin á morgun.
„Það er bara verið að fara yfir skipulagið núna til að passa upp á að allt gangi vel. Þetta lítur oft mikið út en eru kannski ekkert endilega svo margir,“ segir Óskar.