Listaháskólinn settur fjórum sinnum

Listaháskólinn mun hefja 21. starfsárið sitt með óhefðbundnum hætti vegna kórónuveirunnar.

Fríða Björk Ingvarsdóttir rektor mun á morgun setja skólann fjórum sinnum með ólíkum hópum sem eru að hefja BA-nám við Listaháskóla Íslands, að því er kemur fram í tilkynningu.

Athöfnin fer fram í stærsta sal skólans, sviðslistarstúdíói, sem er í húsnæði skólans í við Laugarnesveg 91.

Skólanum hefur verið skipt upp í sóttvarnarhólf og hafa nýnemarnir verið boðaðir á stutta athöfn með samnemendum úr sama hólfi. Á milli hópa verða rýmið og snertifletir sótthreinsaðir og umferð inn og út verður stýrt til þess að tryggja sóttvarnir.

Aðeins örfáir starfsmenn hafa verið boðaðir og útbúin hafa verið sérstök kynningarmyndbönd í stað þess að hitta stoðsvið eins og vaninn er.

Samkvæmt hefðinni mun hollnemi Listaháskólans ávarpa nýnemana, en í ár er það Halldór Laxness betur þekktur sem Dóri DNA sem hlýtur heiðurinn. Hann mun þó ekki vera á staðnum heldur mun hann ávarpa nýnema af myndbandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert