Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu telur sig vita af hverjum líkið, sem fannst í skóginum neðan við Hólahverfi í Breiðholti í fyrradag er. Þetta herma heimildir mbl.is. Ekki er talið ósennilegt að það hafi verið þar um nokkurra mánaða skeið og áfram er talið að ekkert saknæmt hafi átt sér stað.
Líkið er af eldri manni en þrátt fyrir að hann hafi sennilega verið látinn í skóginum í vikur eða mánuði hafði ekki verið lýst eftir honum. Rannsókn málsins heldur áfram hjá lögreglu og kennslanefnd er vinnur nú að því að bera kennsl á líkið.
Uppfært klukkan 13:40:
Upphaflega var því haldið fram að samkvæmt heimildum mbl.is væri búið væri að bera kennsl á líkið. Kennslanefnd hefur ekki lokið störfum og því ekki hægt að fullyrða með vissu af hverjum líkið er. Það er hér með leiðrétt. Hins vegar telur lögregla sig vita af hverjum líkið er samkvæmt heimildum mbl.is.
„Það er ekki rétt [að búið sé að bera kennsl á líkið]. Kennslanefnd er með málið og hún hefur ekki lokið störfum. Kennslanefnd vinnur vinnuna til að bera kennsl á hver viðkomandi er. Við vinnum út frá vísbendingum en við verðum að vinna það formlega,“ segir Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is og bætir við:
„Við vinnum eftir lögum og getum ekki fullyrt að lík sé af manni vegna þess að okkur finnst það líklegt eða það sé ýmislegt sem bendir til þess. Kennslanefnd vinnur eftir formlegu kerfi.“