Alvarlegt flugeldaslys varð í Heiðmörk í gærkvöldi, en þar fann maður ósprungna tívolíbombu. Maðurinn mun hafa farið að eiga við bombuna með þeim afleiðingum að hún sprakk í höndunum á honum.
Hann hlaut mjög alvarlega áverka á hendi við sprenginguna.
Mbl.is greindi frá málinu í morgun þegar tilkynnt var að maðurinn hefði fundið sprengju við göngustíg í Heiðmörk.
Skúli Jónsson, stöðvarstjóri á lögreglustöð 2, segir í samtali við mbl.is að þriggja tommu tívolíbomba hafi fundist á vettvangi.
Að gefnu tilefni varar lögreglan almenning við því að fikta eða eiga við sprengjur sem þeir finna á víðavangi. Í þeim tilfellum sem fólk finnur eða kemur að torkennilegum hlutum á tafarlaust að tilkynna það lögreglu í síma 112.