Jón Birgir Jónsson, fv. ráðuneytisstjóri í samgönguráðuneytinu, er látinn, 84 ára að aldri.
Jón Birgir fæddist hinn 23. apríl 1936 í Reykjavík. Hann lauk prófi í verkfræði frá Háskóla Íslands árið 1959 og prófi í byggingaverkfræði frá Danska tækniháskólanum (DTH) árið 1962. Hann stundaði framhaldsnám við háskólann Berkeley í Kaliforníu og síðar bæði við DTH og Bath-háskóla á Englandi.
Hann hóf störf sem verkfræðingur hjá Vegagerð ríkisins árið 1962, varð umdæmisverkfræðingur Vegagerðarinnar á Norðurlandi vestra 1964-65, umdæmisverkfræðingur á Suðurlandi og samhliða því deildarverkfræðingur vegadeildar 1966-74. Hann var yfirverkfræðingur framkvæmdadeildar frá 1974 og forstjóri tæknideildar frá 1987. Jón Birgir varð aðstoðarvegamálastjóri 1. febrúar 1992, en var settur ráðuneytisstjóri í samgönguráðuneytinu síðla árs 1993 og hlaut skipun árið 1994, þar sem hann starfaði til ársins 2003.
Hann varð stjórnarformaður Farice, félags um lagningu og rekstur fjarskiptastrengs til útlanda um nokkurt skeið, en síðan vann hann sem ráðgjafi og talsmaður fyrir erlend fyrirtæki, sem leggja og reka fjarskiptasæstrengi, enda var honum það mikið áhugamál að byggja upp tryggar og greiðar samgöngubrautir hinnar nýju upplýsingaaldar til og frá landinu. Jafnframt var hann til ráðgjafar um uppsetningu alþjóðlegra gagnavera hér á landi.
Jón Birgir sat í umferðarráði frá stofnun þess árið 1968 til ársins 1975 og í framkvæmdanefnd umferðarráðs 1973-75. Hann var formaður hafnaráðs 1995-2002, formaður siglingaráðs 1996-97 og formaður almannavarnaráðs 2003-04. Hann sat í stjórn Verkfræðingafélags Íslands 1979-81 og var formaður Skógræktarfélags Reykjavíkur 1979-87.
Jón Birgir var félagi í Frímúrarareglunni á Íslandi og í æðstu stjórn hennar um árabil.
Eftirlifandi eiginkona Jóns Birgis er Steinunn Kristín Norberg og eignuðust þau þrjá syni, Aðalstein, Jón Birgi og Kristin Karl, og sjö barnabörn.