Maður slasaðist alvarlega á hendi í Heiðmörk á sjöunda tímanum í gær eftir að hafa fundið sprengju við göngustíg í Heiðmörk.
Í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að tilkynnt var um slysið skömmu fyrir klukkan 19 og lenti lögreglan í erfiðleikum með samskipti vegna tungumálaörðugleika. Að sögn vitnis mun maðurinn hafa átt við sprengjuna og þá hafði komið mikill hvellur og hann slasast mikið á hendi. Sá slasaði var fluttur með sjúkrabifreið á bráðamóttöku Landspítalans.
Tveir voru handteknir og vistaðir í fangageymslum lögreglunnar eftir líkamsárás í Austurbænum, hverfi 104 um klukkan 23 í gærkvöldi. Sá sem varð fyrir árásinni var fluttur með sjúkrabifreið á bráðamóttöku Landspítalans en samkvæmt dagbók lögreglu liggur ekki fyrir hversu alvarleg meiðsl mannsins eru.
Brotist var inn í fyrirtæki í Kópavogi í nótt. Ekki er talið að neinu hafi verið stolið en rúða var brotin í hurð fyrirtækisins og farið inn. Lögreglan hafði afskipti af manni í verslun á Grandanum síðdegis í gær sem var grunaður um að hafa stolið sokkapari.
Leigubílstjóri óskaði eftir aðstoð lögreglu síðdegis í gær vegna farþega sem neitaði að greiða fyrir aksturinn. Þegar lögregla kom á vettvang var farþeginn farinn inn í húsnæði og svaraði ekki þegar lögreglumenn knúðu dyra. Upplýsingar fengust aftur á móti um nafn mannsins.
Fimm ökumenn voru stöðvaðir í gærkvöldi og í nótt grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna og eða áfengis. Stór hluti þeirra er einnig án ökuréttinda þar sem þeir hafa verið sviptir þeim vegna fyrri brota. Einn var síðan stöðvaður fyrir að hafa ekið yfir á rauðu ljósi.
Lögreglan handtók ofurölvi mann í Árbænum í nótt sem olli ónæði með hávaða og látum. Vegna ástands hans var hann vistaður í fangageymslu lögreglu.