„Byggingagreinar hafa vaxið að meðaltali um 45% á tveimur árum,“ segir Hildur Ingvarsdóttir, skólameistari Tækniskólans, um mikla aðsókn í starfs- og iðnnám við skólann. Umsóknir hafa aldrei verið fleiri og óvíst að hægt verði að koma öllum sem vilja að í vetur.
Sem dæmi um sprengingu í einstaka námsgreinum nefnir Hildur að fyrir tveimur árum hafi verið sjötíu nemendur í námi við pípulagnir, en á komandi vetri verði þeir 140 í dagskóla og 40 í kvöldskóla.
Mikið verkefni er að koma sem flestum nemendum að og þegar lítur út fyrir að 4-500 fleiri nemendur verði við nám á komandi misserum en í fyrra, en þá „erum við alveg sprungin,“ segir Hildur og bætir við að sömu sögu sé að segja úr fleiri skólum sem sinna verknámi, á borð við Borgarholtsskóla og Verkmenntaskólann á Akureyri.
Unnið sé að því með Menntamálastofnun að finna lausnir fyrir þá sem ekki komast að, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.