Héraðsdómur Reykjaness hefur gert Þorsteini Halldórssyni hegningarauka upp á þrjú og hálft ár fyrir kynferðisbrot gegn ungum pilti. Þorsteinn var á síðasta ári dæmdur í fimm og hálfs árs fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn öðrum ungum pilti. Dómurinn var kveðinn upp í dag en hann hefur ekki verið birtur. RÚV greinir frá þessu.
Þorsteinn hefur því alls verið dæmdur til að sæta níu ára fangelsi fyrir brotin gegn piltunum tveimur. Um er að ræða einn þyngsta dóm sem sakborningur hefur hlotið fyrir kynferðisbrot hérlendis.
Þorsteinn var ákærður fyrir 50 kynferðisbrot gegn piltinum en þau hófust þegar pilturinn var 14 ára og lauk þeim þegar hann var 17 ára. Þá var Þorsteini einnig gefið að sök að hafa sent kynferðislegar myndir af piltinum til óþekktra aðila á samfélagsmiðlum.
Brotin sem Þorsteinn var dæmdur fyrir nú eru keimlík þeim sem Þorsteinn var áður dæmdur fyrir. Héraðsdómur Reykjaness dæmdi Þorstein í sjö ára fangelsi fyrir þau brot en Landsréttur mildaði síðar refsinguna í fimm og hálft ár.
Þorsteinn var dæmdur til að greiða þeim pilti þrjár og hálfa milljón í skaðabætur en þeim sem hann var dæmdur fyrir brot gegn nú þrjár milljónir. Alls var Þorsteinn því dæmdur til að greiða drengjunum tveimur sex og hálfa milljón í miskabætur.
Foreldrar piltsins sem Þorsteinn var í fyrra dæmdur fyrir að hafa brotið á ræddu ítarlega um málið í samtali við mbl.is í febrúar árið 2018, þar sem þau lýstu sinni reynslu af því ofbeldi sem Þorsteinn beitti son þeirra. Þar sögðu foreldrarnir m.a. að Þorsteinn hefði útvegað drengnum fíkniefni og setið um hann.