Andrés Magnússon
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að hertar sóttvarnaaðgerðir á landamærum miði að því að halda veirunni í skefjum þannig að innanlandshagkerfið verði fyrir sem minnstu raski.
Þetta kemur fram í grein, sem forsætisráðherra ritar í Morgunblaðið í dag. Þar nefnir Katrín að ekki sé beint samhengi milli harðra aðgerða og efnahagssamdráttar. Vísar hún m.a. til reynslu Norðurlanda, en samdráttur í Danmörku og Finnlandi er þannig minni en í Svíþjóð, þar sem miklum mun vægari leiðir í sóttvörnum voru farnar.
Í samtali við Morgunblaðið neitaði Katrín því að ferðaþjónustan væri látin mæta afgangi. „Það eru engar afgangsstærðir í íslensku efnahagslífi, en þetta er flókið mat á flóknum aðstæðum. Staðan er önnur nú en í vor, þegar við vonuðum að þetta væru skammtímaráðstafanir.“
Breyta fregnir að utan um minnkandi dánartíðni veirunnar einhverju? „Það mun mjög reglulegt endurmat eiga sér stað næstu mánuði. Bæði hvað varðar baráttuna gegn veirunni og viðbrögð stjórnvalda við efnahagsafleiðingum hennar.“