Alþýðusamband Íslands ætlar að láta reyna á lögmæti aðgerða Icelandair gegn Flugfreyjufélagi Íslands fyrir Félagsdómi. Bókun þess efnis var samþykkt á miðstjórnarfundi ASÍ í síðustu viku.
ASÍ lýsir yfir stuðningi við FFÍ og segir að látið verði reyna á lögmæti framgöngu Icelandair, með stuðningi Samtaka atvinnulífsins, í deilu við FFÍ um grundvallarreglur varðandi samskipti á vinnumarkaði.
Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, starfandi Formaður FFÍ, og Berglind Kristófersdóttir, stjórnarmaður í FFÍ, komu á fundinn og gerðu grein fyrir því hvernig kjaraviðræðurnar horfðu við þeim.
Samningar náðust loks í lok júní en þeir voru kolfelldir af félagsmönnum FFÍ. 18. júlí hættu stjórnendur Icelandair viðræðum við FFÍ og sögðu öllum flugfreyjum upp. Rúmum sólarhring síðar náðust samningar.
Magnús M. Norðdahl, lögfræðingur ASÍ, telur að tilgangur aðgerða Icelandair hafi verið að reyna að hafa áhrif á afstöðu og þátttöku félagsmanna FFÍ í kjaradeilunni með því að hóta og hrinda í framkvæmd uppsögnum.
Einnig telur hann að fjöldauppsögn hafi falið í sér ólögmætt verkbann.