Frumvarp um ríkisábyrgð Icelandair lagt fram

Lagt hefur verið fram frumvarp til fjáraukalaga þar sem heimild er lögð til handa ráðherra að veita Icelandair Group hf. sjálfskuldarábyrgð frá ríkissjóði á lánum vegna tekjufalls fyrirtækisins í tengslum við kórónuveirufaraldurinn.

Þingskjal þess efnis var birt á vef Alþingis í dag.

Heildarskuldbinding ríkissjóðs vegna þessa getur numið allt að 108 milljónum Bandaríkjadala eða sem jafngildir 90% af 120 milljóna bandaríkjadala lánalínum til félagsins, að því er þar kemur fram.

Lögð er til breyting 6. gr. fjárlaga fyrir árið 2020, í tengslum við aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að draga úr tjóni vegna kórónuveirufaraldursins og skapa öfluga viðspyrnu í kjölfar faraldursins.

Rekstrargrundvöllur hafi brostið

Fram kemur í frumvarpinu að aðkoma ríkisins sé nauðsynleg til að tryggja traustar og órofnar samgöngur frá landinu, og að til staðar sé flugrekstraraðili sem taki öflugan þátt í efnahagslegri viðspyrnu þegar þar að kemur.

Einnig þurfi að tryggja rekstrar- og samkeppnishæfni til lengri tíma.

Rekstrargrundvöllur Icelandair hafi brostið af völdum kórónuveirunnar og hafi félagið orðið fyrir nær algjöru tekjufalli á fyrri hluta þessa árs, meðal annars vegna takmarkana á ferðum og ferðafrelsi.

Icelandair hefur tilkynnt að það stefni á hlutafjárútboð á næstu vikum, en félagið hefur kynnt fyrir hagaðilum áætlun um fjárhagslega endurskipulagningu og rekstur félagsins á næstu árum.

Áhætta ef rekstur gengur illa

Þar sem ekki verði dregið á lánalínur með ríkisábyrgð nema áætlun félagsins gangi ekki upp að verulegu leyti felist lykiláhætta ríkissjóðs í því að rekstur Icelandair verði verri en félagið geri ráð fyrir.

Þeir þættir sem gætu haft neikvæð áhrif á rekstur félagsins, samkvæmt frumvarpinu, séu m.a. að aukning eftirspurnar á flugi Icelandair verði hægari en gert er ráð fyrir, eða að aukin samkeppni myndi leiða til lægri verða á flugsætum en gert sé ráð fyrir.

Verði félagið gjaldþrota er fjárhagsleg áhætta ríkisins 90% af höfuðstól lánalínanna, eða um 15 milljarðar króna. Við gjaldþrot muni hins vega lykileignir félagsins – td. vörumerki, bókunarkerfi og lendingarheimildir – renna til ríkisins.

Þá er tekið fram að almannafé og áhætta ríkisins verði takmörkuð við það sem þjóni opinberum hagsmunum, en hafi ekki að markmiði að verja hag hluthafa eða lánadrottna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka