Neikvæðir eftir skimun á Eir

Landspítali/Þorkell Þorkelsson

Þrír skjólstæðingar Borgarsels, dagþjálfunar fyrir heilabilaða sem rekið er af Eir hjúkrunarheimili, og fjórir starfsmenn sem höfðu verið í mestum samskiptum við starfsmann sem greindist með kórónuveirusmit hafa verið skimaðir.

Reyndust þeir allir neikvæðir en þeir verða áfram í sóttkví til 2. september og verða skimaðir aftur í lok sóttkvíar en starfsmaðurinn greindist með kórónuveirusmit á fimmtudaginn í síðustu viku. Hann hafði mætt til vinnu á þriðjudaginn fyrir viku, einkennalaus, og viðhafði allar sóttvarnir.

Borgarsel hefur verið opnað á ný fyrir þá skjólstæðinga sem sjúkdóms síns vegna eiga erfitt með að vera einir heima allan daginn. Allir skjólstæðingar Borgarsels, utan þeir sem eru í sóttkví, verða skimaðir í dag og á morgun.

Þar til sóttkví lýkur, 2. september, verður starfsemi Borgarsels aðeins með breyttu sniði. Allir starfsmenn og dagþjálfunargestir verða hitamældir við komu og snertifletir sótthreinsaðir oftar en venjulega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert