„Skaðinn að stórum hluta skeður“

Á ann­an tug farþega­flug­véla komu til lands­ins í gær, en …
Á ann­an tug farþega­flug­véla komu til lands­ins í gær, en ferðamálastjóri sagði í viðtali sem birtist í dag að eng­ar vís­bend­ing­ar séu um að mik­ill fjöldi ferðamanna sé til­bú­inn að sæta sótt­kví. mbl.is/Ómar Óskarsson

Mikill fjöldi fyrirtækja í ferðaþjónustu metur það nú hvort eitthvað annað sé til ráða en að segja upp meirihluta starfsfólks um mánaðamótin. Afbókanir eru farnar að berast sem ná alveg fram að áramótum. Þetta segir Jóhannes Þór Skúlason framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF) sem sér fram á margar uppsagnir innan geirans á næstunni.

Jóhannes Þór segir að SAF eigi í góðum samskiptum við stjórnvöld en samtökin horfi nú helst til mótvægisaðgerða innanlands vegna bágrar stöðu ferðaþjónustunnar í heimsfaraldri kórónuveiru. Þá kalli SAF einnig eftir því að reglur um tvöfalda skimun og sóttkví á milli við komuna til landsins verði endurskoðaðar. 

„Við höfum komið því skýrt á framfæri að við teljum að það hefði verið mögulegt og skynsamlegt að nota aðra útfærslu sem hefði bæði þjónað sóttvarnarlegum og efnahagslegum markmiðum betur en þessi. Við vonumst til þess að þetta verði endurskoðað en því miður er skaðinn að stórum hluta skeður þar sem afbókanir eru farnar að berast alveg fram að áramótum,“ segir Jóhannes Þór.

Jóhannes Þór Skúlason, framkæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.
Jóhannes Þór Skúlason, framkæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar. Kristinn Magnússon

Mjög mikið um uppsagnir

Fjöldi fyrirtækja hafði séð fram á að veita fólki vinnu fram í veturinn sem nú gæti misst störf sín um mánaðamótin. Þá höfðu ferðaþjónustufyrirtæki einnig endurráðið starfsfólk eftir uppsagnir í vor. 

„Ég veit að það er mikill fjöldi fyrirtækja að meta það núna hvort þau hafi einhver önnur ráð heldur en að segja upp meirihlutanum af starfsfólki sem þau sáu fram á að geta verið með í vinnu eitthvað inn í veturinn eða höfðu nýlega endurráðið. Ég tel að það verði mjög mikið um uppsagnir nema ef hlutabótaleið ríkisstjórnarinnar verður framlengd. Það gæti komið eitthvað á móti og ég tel að það sé mjög mikilvægt að það gerist,“ segir Jóhannes Þór. 

„Engin tækifæri“ í nýjum reglum

Ferðamálastjóri sagði í viðtali sem birtist í Morgunblaðinu í dag að mikla bjartsýni þyrfti til að ætla að sjá tækifæri í nýjum reglum á landamærunum. Spurður hvort einhver tækifæri séu fyrir ferðaþjónustuna í þessum reglum segir Jóhannes Þór:

„Ég held ég gangi enn lengra en ferðamálastjóri. Það eru engin tækifæri í þessum nýju reglum. Þær koma í raun bara í veg fyrir það að hægt sé að starfrækja ferðaþjónustufyrirtæki hér á eðlilegan máta.“

SAF hefðu helst viljað sjá tvöfalda skimun á landamærunum fyrir Íslendinga og þá sem starfa eða búa á Íslandi en tvöfalda skimun með 4-6 daga sóttkví á milli en án sóttkvíar á milli, nema í 12-24 klukkustundir á meðan niðurstaðna væri beðið, fyrir erlenda ferðamenn.

„Það hefði mátt horfa til einhverrar svona útfærslu þar sem hægt hefði verið að ná meira jafnvægi á milli þessara sjónarmiða. Þarna voru sóttvarnarsjónarmiðin í raun látin ráða og efnahagslega sjónarmið gagnvart ferðaþjónustunni og gjaldeyrissköpun fórnað fyrir hina hliðina,“ segir Jóhannes Þór.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert