Andlát: Eiríkur Brynjólfsson

Eiríkur Brynjólfsson.
Eiríkur Brynjólfsson.

Eiríkur Brynjólfsson kennslustjóri lést sl. sunnudag, 69 ára að aldri. Eiríkur fæddist 19. maí 1951, sonur hjónanna Brynjólfs Eiríks Ingólfssonar lögfræðings og Helgu Sigurðardóttur.

Hann lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands 1972, stúdentsprófi frá sama skóla 1973 og prófi í uppeldis- og kennslufræðum frá Háskóla Íslands 1983. Þá lauk hann BA-prófi í íslensku og almennum málvísindum frá HÍ 1983 og stundaði MA-nám í íslenskum bókmenntum 1986 til 1987. Eiríkur stundaði einnig nám í rússnesku og spænsku og sótti ýmis námskeið um íslenskukennslu, sérkennslu og tölvufræði.

Eiríkur kenndi íslensku við Ármúlaskóla í Reykjavík 1974 til 1978 og Fjölbrautaskólann við Ármúla 1979 til 1990. Hann var kennari og deildarstjóri sérdeildar unglinga í Austurbæjarskóla 1994-2000 og deildarstjóri sérkennslu og umsjónarmaður námsvers unglinga í Austurbæjarskóla 2000-2006. Þá var hann sérkennari og íslenskukennari við Fjölbrautaskólann við Ármúla frá hausti 2007 og kennslustjóri almennrar námsbrautar til dauðadags. Hann var um tíma prófarkalesari á DV og skrifaði pistla í blaðið um íslenskt mál. Þá var hann þýðandi á Stöð 2 og rak ásamt öðrum fyrirtækið Orðhaga sf. um árabil.

Eiríkur var m.a. ritstjóri Kennarablaðsins fyrir Hið íslenska kennarafélag 1988 til 2000 og sat í stjórn þess félags um tíma. Hann var ritstjóri handbókar Hins íslenska kennarafélags 1992-2000 og ritstjóri Skímu, málgagns Samtaka móðurmálskennara, 1990-1992. Hann var foringi Hins íslenska glæpafélags frá 2007 en það er félag rithöfunda og áhugamanna um glæpasögur.

Eiríkur sendi frá sér smásagnasöfn og ljóðabækur og smásögur og ljóð eftir hann birtust í ýmsum safnritum og tímaritum.

Fyrri eiginkona Eiríks er Ingibjörg Einarsdóttir. Þau skildu. Börn þeirra eru Matthildur, Einar og Guðrún. Síðari eiginkona Eiríks er Steinunn H. Hafstað, fjarnámsstjóri við Fjölbrautaskólann við Ármúla. Sonur þeirra er Jón Haukur Hafstað.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert