„Við höfum ekki heyrt af neinu tjóni eða hruni. Þeir sem ég talaði við í Grindavík sögðu að hlutir hafi titrað í hillunum hjá þeim og eitthvað aðeins brakað í húsum,“ segir Einar Bessi Gestsson, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands um skjálfta af stærð 4,2 sem varð klukkan 16.15 síðdegis í dag og fannst víða á Suðvesturlandi.
Yfir 100 tilkynningar bárust Veðurstofunni vegna skjálftans. Töluverð eftirskjálftavirkni hefur verið í kjölfar hans.
„Í svona hrinum er í raun aldrei hægt að útiloka það að við munum fá stærri skjálfta yfir 5 að stærð. Eins og við reynum að benda á í svona hrinum þá er þetta er ágætt tækifæri fyrir fólk sem býr nálægt að fara yfir viðbrögð við skjálftum og tryggja lausamuni,“ segir Einar.
Skjálftinn varð 3,2 kílómetra austur af Fagradalsfjalli en tveir stórir skjálftar eru skráðir á vef Veðurstofu Íslands klukkan 16:15, annar 4,9 af stærð. Einar segir að það sé einfaldlega vegna þess að sjálfvirkt kerfi hafi skráð stærri skjálftann inn, ekki hafi tveir stórir skjálftar orðið klukkan 16:15.
Skjálftavirkni við Fagradalsfjall hófst 19. júlí síðastliðinn. Í upphafi hrinu urðu stærri skjálftar en sá sem varð í dag, 19. og 20. júlí skalf jörðin við fjallið duglega með skjálftum sem voru 4,6 og 5 af stærð. Virknin jókst aftur í morgun, að sögn Einars.
Annar skjálfti varð fyrr í dag sem fannst víða á Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu. Hann var af stærðinni 3,7 og varð 2,9 kílómetra austur af Fagradalsfjalli um klukkan korter í tvö.