Ekkert afskrifað í ferlinu

Icelandair Group fékk engar skuldir afskrifaðar í umfangsmikilli samningalotu við lánardrottna sína í sumar. Bogi Nils Bogason segir að félagið muni vera í sterkri stöðu ef hlutafjárútboð, sem stefnt er að í september, heppnast vel. Þar er ætlunin að safna allt að 23 milljörðum.

Þannig muni farsæl niðurstaða í fyrrnefndum samningum m.a. gera Icelandair að eftirsóttum mótaðila þegar kemur að kaupum á flugvélum eða fjármögnun félagsins. Bendir hann á að Icelandair hafi farið allt aðra leið en Norwegian sem hafi breytt skuldum í hlutafé. Það hafi skýrst af því að skuldir norska félagsins hafi verið fólgnar í vanskilum og óveðtryggðum pappírum. Því hafi ekki verið til að dreifa hjá Icelandair Group og samningsstaða lánardrottna því allt önnur.

Í ítarlegu viðtali í ViðskiptaMogganum í dag fer Bogi Nils yfir áætlanir þær sem nú hafa verið teiknaðar upp og miða að því að koma félaginu á beina braut að nýju. Segir hann ýmis tækifæri felast í umrótinu á markaðnum nú um stundir. Slíkt ástand hafi oft nýst Icelandair og það muni gerast aftur, ef rétt er haldið á spilum.

Nýtt frumvarp til fjáraukalaga var birt í gærkvöldi. Samkvæmt því mun Icelandair greiða 37,5 milljóna króna grunngjald til ríkisins á ári, fyrir að halda lánalínu opinni þeirra á milli. Ofan á þá greiðslu bætist notkunarálag, sem samkvæmt frumvarpinu tekur mið af því hversu hátt lánalínurnar eru ádregnar.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert