„Þetta er alltaf smá ógnvekjandi. Það er ekki spurning um hvort heldur hvenær það verður eldgos á [Reykjanesskaga]. Hvort það verður eftir 10 ár, 100 eða 300 vitum við ekki. Sagan segir okkur það og manni stendur alls ekki á sama,“ segir Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar um skjálfta af stærðinni 4,2 sem varð klukkan 16.15 síðdegis í dag.
Kjartan var sjálfur staddur á skrifstofu sinni þegar skjálftinn varð og fann greinilega fyrir honum eins og allir sem hann ræddi við í kjölfarið. „Það fór ekkert á milli mála að þetta var sterkur skjálfti,“ segir Kjartan í samtali við mbl.is.
Kjartan veit ekki til þess að tjón eða hrun hafi orðið vegna skjálftans í Reykjanesbæ og bendir á að skjálftinn hafi verið lengra frá Reykjanesbæ en fyrri hrinur sem urðu við fjallið Þorbjörn. Sá skjálfti sem um ræðir nú átti upptök sín 3,2 km austur af Fagradalsfjalli.
Kjartan tekur undir með bæjarstjóra Grindavíkurbæjar og segir að skjálftar af þessari stærð venjist aldrei. Alltaf þegar stórir skjálftar verði leiði hann hugann að því að eldgos geti orðið á svæðinu.
„Ég hef fulla samúð með vinum mínum og frændum í Grindavík [hvað það varðar],“ segir Kjartan.
Annar skjálfti varð fyrr í dag sem fannst víða á Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu. Hann var af stærðinni 3,7 og varð 2,9 kílómetra austur af Fagradalsfjalli um klukkan korter í tvö.