Hlutabótaleið stjórnvalda verður framlengd um tvo mánuði, laun í sóttkví verða greidd til næsta árs og tekjutengdar atvinnuleysisbætur fást greiddar næsta hálfa árið.
Þetta er meðal þess sem rætt var á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun.
Að öllu óbreyttu hefði hlutabótaleiðin runnið út um næstu mánaðamót. Ekki eru lagðar til efnislegar breytingar en samkvæmt lögunum getur fólk sem verið hefur í fullu starfi farið niður í allt að 50 prósenta starfshlutfall og átt rétt á bótum. Þeir sem eru með 400 þúsund eða minna í mánaðarlaun fá fullar bætur á móti skertu hlutfalli í vinnu.
Með frumvarpi um tekjutengdar atvinnuleysisbætur mun réttur til tekjutengdra atvinnuleysisbóta fara úr þremur mánuðum í sex mánuði, enda séu ákveðin skilyrði uppfyllt, og hlutabótaleiðin verður framlengd um tvo mánuði. Greiðslur launa vegna einstaklinga í sóttkví munu einnig halda áfram.
Formenn stjórnarandstöðuflokkanna og nefndarmenn í fjárlaganefnd funda með ríkisstjórninni í Hörpu nú síðdegis.
Farið verður yfir frumvarp til fjáraukalaga þar sem heimild er lögð til handa ráðherra að veita Icelandair Group hf. sjálfskuldaraábyrgð frá ríkissjóði á lánum vegna tekjufalls fyrirtækisins í tengslum við kórónuveirufaraldurinn.
Alþingi kemur saman á morgun, í stubbnum svonefnda, en þar á að taka fyrir breytingar á fjármálastefnu ríkisins, auk frumvarps félagsmálaráðherra um hlutdeildarlánin, eins og um var rætt í lífskjarasamningunum.