Leggja til breytingar á fjármálastefnu

Fjármálaráðherra hefur lagt til breytingar á gildandi fjármálastefnu til að …
Fjármálaráðherra hefur lagt til breytingar á gildandi fjármálastefnu til að bregðast við efnahagskreppu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjármála- og efnahagsráðherra hefur lagt fram tillögu til þingsályktunar um breytingu á gildandi fjármálastefnu fyrir árin 2018-2022. Tilgangur breytinganna er að bregðast við efnahagskreppu og koma í veg fyrir þrálátt atvinnuleysi í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru með því að leggja áherslu á að verja og skapa verðmæt störf um land allt á næstu misserum. 

Markmiðið er samkeppnishæft þjóðfélag þar sem velsæld byggist á öflugum mannauði og kröftugu efnahagslífi eftir því sem fram kemur í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins. 

Sett eru markmið um að halli á heildarjöfnuði A-hluta hins opinbera verði að hámarki 14,5% af vergri landsframleiðslu árið 2020, 13% af vergri landsframleiðslu árið 2021 og 10,5% af vergri landsframleiðslu árið 2022 með meðtöldu óvissusvigrúmi. 

Skuldaukning ríkissjóðs miðar að því að létta byrðar heimila og fyrirtækja vegna áfalls af völdum heimsfaraldurs. Sérstakar aðhaldsráðstafanir verða látnar bíða. Afkomu- og skuldamarkmiðum er breytt til að endurspegla breyttar horfur í efnahagsmálum og nauðsynlegar aðgerðir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert